Hafa samband Netspjall

Lífríki Andakílsár réttir úr kútnum

Lífríki í Andakílsá er óðum að taka við sér eftir að mikill aur barst í ána við ástandsskoðun á inntaksstíflu Andakílsárvirkjunar í fyrrasumar. Samkvæmt áfanganiðurstöðum Hafrannsóknastofnunar er enn nokkurt set í farveginum, einkum þar sem straumur en minnstur, en búsvæði gróðurs og dýra endurheimtist tiltölulega hratt. Hrygning í fyrrasumar virðist hafa tekist vel og mikill fjöldi eins árs laxaseiða fannst í ánni í sumar.

Gripið til mótvægisaðgerða

Í maí 2017 var inntakslón Andakílsárvirkjunar, sem er í eigu Orku náttúrunnar, tæmt til að ástandsmeta stíflumannvirki og lokubúnað. Mistök voru gerð sem ollu því að mikið botnset úr lóninu barst niður í farveg Andakílsár, sem auk orkuvinnslunnar er laxveiðiá. Í samráði við hagsmunaaðila og vísindamenn var þegar í stað gripið til mótvægisaðgerða. Mesta setið var hreinsað úr hyljum, lax tekinn til seiðaeldis og ákveðið var engin laxveiði yrði stunduð þar sumrin 2017 og 2018. Um 200 laxar veiðast ár hvert í ánni. Samhliða var ákveðið að vakta lífríkið í ánni til að meta árangur aðgerða jafnharðan.

Lagt til að veitt verði á ný 2020

Nú liggja fyrir bráðabirgðaniðurstöður fiskifræðings á Hafrannsóknastofnun eftir rannsóknir sumarsins 2018. Sérstaklega er hugað að laxastofninum í ánni og benda rannsóknir til að hrygning bæði nú í sumar og í fyrra hafi tekist vel. Hinsvegar hafi sá árgangur sem var eins árs þegar slysið varð orðið mjög illa úti en tveggja ára seiðum vegnar örlítið betur. Til að vega á móti þessum skörðum í stofninum hefur verið ákveðið að 30.000 seiðum verði sleppt í ána á næsta ári og þarnæsta. Þá er lagt til að veiði hefjist á ný sumarið 2020.

Tiltölulega hröð endurheimt vatnalífs

Samhliða því að set hefur skolast úr árbotninum hafa þörungar og smádýr tekið við sér. Endurheimt vatnalífs á búsvæðum Andakílsár hefur gerst tiltölulega hratt og ekki er talið ólíklegt að á næstu tveimur til þremur árum verði magn og samfélagsgerð botnlægra þörunga og hryggleysingja sambærileg við það sem var áður en setið barst í ána.

Von er á skýrslu Hafrannsóknastofnunar á fyrstu mánuðum ársins 2019. Að henni fenginni mun starfsfólk Orku náttúrunnar meta stöðuna betur með vísindafólki og hagsmunaaðilum og ákveða framhald aðgerða, rannsókna og vöktunar.

Andakíll
Andakílsá

Aðferðir og árangur í endurheimt staðargróðurs

Nýlega komu 45 gestir af alþjóðlegri landgræðsluráðstefnu Society For Ecological Restoration (SER) í heimsókn á Hellisheiði til að skoða aðferðir og árangur í endurheimt staðargróðurs á virkjunarsvæðinu.

Árangurinn vakti hrifningu gestanna og töldu þeir að landgræðsluaðferðir og skipulag frágangs hjá ON geti nýst vel í verkefnum í þeirra heimalöndum.

Landgræðsla ríkisins í samvinnu við Landbúnaðarháskóli Íslands sá um skipulagningu ráðstefnunnar og var heimsóknin hluti af skoðunarferð um Reykjanes.

Landgræðsluhópur í heimsókn á Hellisheiði
 
2013.jpg
 
2018.jpg
Landgræðsluheimsókn 2018

Uppfærsla í gangi

Vegna uppfærslu er ekki hægt að sækja um ON-lykilinn og Mínar síður eru lokaðar þriðjudaginn 2. október kl. 21:00-23:00.

Starfsfólk ON biðst velvirðingar á óþægindum vegna þessa.

ON styður fyrsta rafbílarallýið á Íslandi

Dagana 21. og 22. september heldur Akstursíþróttasamband Íslands, AKÍS, fyrsta alþjóðlega rafbílarallýið sem fram fer hér á landi.

Dagana 21. og 22. september heldur Akstursíþróttasamband Íslands, AKÍS, fyrsta alþjóðlega rafbílarallýið sem fram fer hér á land. Þrír erlendir keppendur á mótaröðinni eru skráðir til leiks. Rafbílarallýið hefst í fyrramálið föstudaginn 21. september, kl 09:00 þegar fyrstu keppendur verða ræstir frá höfuðstöðvum ON að Bæjarhálsi 1.  Rallýinu lýkur á sama stað en keppendur koma í mark laugardaginn 21. september um kl. 15:00 og verður þá ljóst hver sigrar í keppninni.

Orka náttúrunnar er helsti styrktaraðili keppninnar. Fyrirtækið hefur sett upp á fjórða tug rafbílahlaða hringinn í kringum landið og mun nú sjá um að keppendur geti hlaðið bíla sína meðan á rallýinu stendur. Komið verður fyrir búnaði á vagni sem tengdur verður háspennukerfi á fyrirfram skilgreindum hleðslustöðum við keppnisleiðirnar þannig að margir keppendur geta hlaðið í senn.

Keppt í nákvæmnisakstri

eRally FIA er ekki kappakstur heldur nákvæmnisakstur. Alltaf er ekið innan löglegs hámarkshraða og gengur keppnin út á að aka fyrirfram ákveðna leið samkvæmt leiðabók og á hraða sem gefinn er upp í leiðabókinni. Keppt er á almennum opnum vegum í hefðbundinni umferð. Valdar voru fallegar leiðir í nágrenni Reykjavíkur, að mestu malbikaðar en einnig eru nokkrir malarvegir.

Umhverfisvænar samgöngur

Markmið Alþjóða aksturssambandsins, FIA, með eRally er að kynna nýjustu tækni ökutækja sem ætlað er að spara orku sem gefa frá sér minnsta mögulega magn mengunar og koltvísýrings. Því er einnig ætlað að hvetja alla ökumenn til að breyta akstri með áherslu á umhverfisvernd og sjálfbærni bílaumferðar með því að nota rafmagn sem drifkraft ökutækja.

Hluti af þessu átaki FIA var að hleypa af stokkunum mótaröð undir heitinu FIA Electric and New Energy Championship til að leggja aukna áherslu á mikilvægi þessa.

Nánari upplýsingar erally.is

https://www.facebook.com/events/315063462407852/

Generic Image

Berglind Rán nýr framkvæmdastjóri ON

Ákveðið hefur verið að forstöðumaður fyrirtækjamarkaða ON, Berglind Rán Ólafsdóttir, taki tímabundið við starfi framkvæmdastjóra ON en ekki forstöðumaður tækniþróunar, eins og áður var tilkynnt.

Berglind er sameindalíffræðingur með MBA próf frá IESE í Barcelona. Hún kom til starfa hjá Orku náttúrunnar fyrir ári og hafði þá meira en áratugarreynslu af viðskiptaþróun meðal annars hjá Landsvirkjun, Medis og Íslenskri erfðagreiningu.

Berglind Rán
Berglind Rán

Framkvæmdastjóraskipti hjá ON

Þórður Ásmundsson hefur verið ráðinn til að gegna starfi framkvæmdastjóra Orku náttúrunnar til bráðabirgða eftir að stjórn fyrirtækisins ákvað á fundi um miðjan dag í gær að binda enda á ráðningu fyrrverandi framkvæmdastjóra. Hann hefur látið af störfum. 

Starfið verður auglýst laust til umsóknar á næstunni. Þórður hefur starfað hjá Orku náttúrunnar frá stofnun, árið 2014, fyrst sem verkefnisstjóri og síðan sem forstöðumaður tækniþróunar.

Starfslok fyrrverandi framkvæmdastjóra tengjast tilvikum þar sem framkoma hans gagnvart samstarfsfólki var óviðeigandi. Það er tekið alvarlega af stjórn Orku náttúrunnar.

Þórður Ásmundsson
Þórður Ásmundsson

Pages