Hafa samband Netspjall

Gleðileg jól og umhverfisvænt nýtt ár!

Undefined

Mosfellingar fá hraðhleðslu

ON hefur í samstarfi við N1 tekið í notkun hraðhleðslu fyrir rafbíla í Mosfellsbæ. Það var rafbílaeigandinn og Mosfellingurinn Valgerður Fjóla Einarsdóttir sem hlóð fyrstu hleðsluna í dag, föstudaginn 14. desember.

„Það er gríðarlegur munur að fá hraðhleðslu hingað í heimahagana og þurfa ekki að leita langt yfir skammt þegar hleðslu er þörf,“ sagði Valgerður Fjóla við þessi tímamót.

Viðstödd voru, auk Valgerðar Fjólu, Guðjón Hugberg Björnsson og Hafrún Þorvaldsdóttir frá ON, Guðný Rósa Þorvarðardóttir framkvæmdastjóri N1 og Kristinn Guðmundsson verslunarstjóri Háholti í Mosfellsbæ.

Ánægjulegt samstarf og afsláttur fyrir N1 viðskiptavini

Fyrir tæpum tveimur árum gerðu ON og N1 með sér samkomulag um uppsetningu á hlöðum á þjónustustöðvum N1, sem býr yfir einu stærsta neti þjónustustöðva við vegi landsins. N1 korthafar fá 10% afslátt af mínútugjaldinu í hraðhleðslum ON á 10 þjónustustöðvum N1 víðsvegar um landið.

„Það hefur lengi verið á dagskrá að bæta við hleðslu í Mosfellsbæ og við höfum fengið margar fyrirspurnir. Það skiptir okkur hjá N1 miklu máli að svara þörfum allra okkar viðskiptavina, ekki síst þeirra sem kjósa að aka með umhverfisvænum hætti“, sagði Guðný Rósa.

Hlaðan í Mosfellsbæ er með tveimur hraðhleðslutengjum auk Type 2 hleðslutengis.

Hlöður ON og hlöður á áætlun - landið allt (pdf)

Hlöður ON og hlöður á áætlun - höfuðborgarsvæðið (pdf)

 

N1 og ON Mosfellsbæ
Valgerður, Guðný Rósa, Hafrún, Guðjón og Kristinn

ON hraðhleðsla á Flúðum liður í bættri þjónustu við ferðamenn

Það ríkti mikil tilhlökkun síðastliðinn föstudag þegar þau Guðmundur Sigurhansson og Margrét Runólfsdóttir á Icelandair Hóteli opnuðu fyrstu ON-hlöðuna á Flúðum með því að hlaða Hyundai Kona EV, fyrsta rafknúna smájeppann í Evrópu.

Hlaðan er stendur við Icelandair hótelið og blasir við um leið og komið er inn í bæinn. Það eru hjónin Guðmundur Sigurhansson og Margrét Runólfsdóttir sem eiga og reka hótelið og hafa gert síðan 2001.

„Við lítum fyrst og fremst á ON-hlöðuna sem bætta þjónustu við ferðamenn sem heimsækja svæðið, jú og auðvitað við íbúa hér í hreppnum og nærsveitum“, segir Guðmundur.

„Hlaðan á Flúðum er búin hraðhleðslum af tvennum toga og hefðbundinni hleðslu. Hrunamannahreppur leggur mikla áherslu á eflingu umhverfismála og einn liður í þeirri vegferð er að ferðafólk eigi nú betur með að ferðast á vistvænum bílum um svæðið er í takti við sýn heimamanna“, segir Jón G. Valgeirsson sveitastjóri Hrunamannahrepps.

„Hér er margt að skoða og gríðarlega stór hluti ferðamann á leið hér um. Það er sjálfsagt mál og ekki síst safélagsleg ábyrgð okkar að bjóða upp á öfluga hleðslu fyrir þá sem hugað að umhverfinu“, segir Margrét.

Hlaðan á Flúðum er sú 47. í röðinni, en eitt af markmiðum Orku náttúrunnar er að rafbílaeigendur geti ekið áhyggjulausir um landið, vitandi hvar næstu ON hlöðu er að finna.

ON hlaða hjá Icelandair Hotels Flúðum
Margrét Runólfsdóttir og Guðmundur Sigurhansson

ON hleðslur við Landsspítalann í Fossvogi

Landspítalinn leggur sitt af mörkum við orkuskipti með því að auðvelda starfsfólki aðgang að hleðslum fyrir rafbíla á nokkrum starfsstöðvum sínum. Verkefnið er hluti af umhverfistefnu og loftslagsmarkmiðum Landspítala, en mikilvægt er að hraða orkuskiptum í samgöngum með því að efla innviði s.s. gott net hleðslustöðva.

Landspítalinn leggur sitt af mörkum við orkuskipti með því að auðvelda starfsfólki aðgang að hleðslum fyrir rafbíla á nokkrum starfsstöðvum sínum. Verkefnið er hluti af umhverfistefnu og loftslagsmarkmiðum Landspítala, en mikilvægt er að hraða orkuskiptum í samgöngum með því að efla innviði svo sem gott net hleðslustöðva. Í sumar voru settar upp hleðslur á tveimur starfstöðvum spítalans; við Landakot og á Kleppi. Nú hafa verið settar upp tvær hlöður í Fossvogi. ON sér um uppsetningu og rekstur hleðslanna sem allar gerðir rafbíla geta nýtt sér.

Starfsfólk Landspítala og aðrir rafbílaeigendur þurfa að sækja um ON lykil á vefsíðu ON til þess að nýta sér hleðslurnar. Ferlið er einfalt; sótt er um lykil sem berst með pósti heim og fólk virkjar hann með því að skrá inn greiðslukort á Mínum síðum ON. Það eina sem þarf að gera til að setja hleðslu í gang er að bera ON lykilinn upp að hlið hleðslunnar, stinga í samband við bílinn og hefst þá hleðsla. Hleðslurnar eru 22kW en sérhver rafbíll stýrir hraða hleðslunnar sjálfur. Flestar rafbílategundir eru að taka inn á sig ca. 6-7kWh á klst. og eru því flestir um 4-5 klst. að fullhlaða sig í þessum hleðslum. Stæðin við hleðslurnar eru fyrir rafbíla í hleðslu en ekki bílastæði og tveir rafbílar geta hlaðið í hvorri um sig í einu.

Hleðslurnar verða gjaldfrjálsar fyrst um sinn, en síðar munu viðskiptavinir greiða skv. verðskrá ON, sem verður lægra en verð fyrir hraðhleðslur ON. Allar nánari upplýsingar er að finna í þjónustuveri eða á https://www.on.is/rafbilar.

Hlaða við Landspítalann í Fossvogi
Herdís Herbertsdóttir deildarstjóri Flæðisdeildar, Hulda Steingrímsdóttir umhverfisstjóri Landsspítala, Hafrún Huld Þorvaldsdóttir ON og Kristján H. Theodórsson rekstrarstjóri rafmagns

Fyrirtæki

ON-hlaða komin á Dalvík

ON hefur komið upp hlöðu á Dalvík í samstarfi við N1 og stendur hún við sjálfsafgreiðslu fyrirtækisins og aðstöðu hvalaskoðunarfyrirtækisins Arctic Sea Tours við Hafnarbraut. Með þessu þéttist enn það net af hlöðum sem ON hefur komið upp á Norðurlandi. Fyrir eru hlöður við Staðarskál, á Blönduósi, í Varmahlíð, á Sauðárkróki, Akureyri, Húsavík og við Mývatn.

Upplýsingar um allar hlöður ON er að finna í smáforritinu ON Hleðsla. Það er fáanlegt fyrir hvorttveggja Android síma og iPhone. Auk þess að sýna hvar hlöður er að finna sýnir appið leiðina að þeim, hvers lags hleðslubúnaður er í hverri hlöðu og hvort þær eru uppteknar.

Í hlöðunni við Hafnarbraut á Dalvík, sem tekin var í notkun á föstudag, eru tengi af gerðunum Type 1 og Type 2. Það þýðir að búnaður er ekki til hraðhleðslu og ekki verður innheimt fyrir notkun á hlöðunni fyrst um sinn.

Hlaða ON á Dalvík
Guðrún Pálína Jóhannsdóttir, sviðstjóri fjármála hjá Dalvíkurbyggð, Axel R. Eyþórsson, sérfræðingur í rafmagnsmálum hjá ON og Freyr Antonsson, framkvæmdastjóri Arctic Sea Tours

Niðurstöður óháðrar úttektar liggja fyrir

Óháðri úttekt á vinnustaðamenningu innan Orkuveitu Reykjavíkur og Orku náttúrunnar er nú lokið og voru niðurstöðurnar kynntar á blaðamannafundi í dag.

Úttektin sýnir að vinnustaðamenning og starfsánægja hjá Orku náttúrunnar er betri en almennt gerist á íslenskum vinnumarkaði. Þá kemur einnig fram að uppsagnir fyrrverandi framkvæmdastjóra og forstöðumanns einstaklingsmarkaðar voru réttmætar.

Berglind Rán Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Orku náttúrunnar:

Það er gott að niðurstöðurnar liggja nú fyrir. Þetta hefur verið krefjandi tími hjá starfsfólki Orku náttúrunnar en niðurstöðurnar sýna að vinnustaðarmenningin er betri en gengur og gerist á íslenskum vinnumarkaði. Samskipti og samstarf hafa almennt einkennst af virðingu og heiðarleika eins og starfsmannakannanir hafa sýnt en við munum hlusta á ábendingar og vinna saman að því að gera vinnustaðinn betri.

Nánar má lesa um úttektina og nálgast skýrslu innri endurskoðunar á vef OR - smelltu hér

Generic Image

ON og Etix Everywhere Borealis semja um rafmagnskaup

ON og gagnaversfyrirtækið Etix Everywhere Borealis hafa gert með sér samning um rafmagnsviðskipti vegna uppbyggingar á gagnaverum á Blönduósi og á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er annað gagnaverið sem Orka náttúrunnar semur við og með samningnum við ON hefur fyrirtækið tryggt sér yfir 10 megavött sem eru að losna úr langtímasamningum.

Etix Everywhere Borealis hefur rekið gagnaver hér á landi um hríð og vex hratt, en það er í blandaðri eigu íslenskra og erlendra aðila. Fyrirtækið opnaði nýlega gagnaver við Blönduós og er frekari uppbygging fyrirhuguð þar og á Reykjanesi. Í kjölfar aðkomu alþjóðlega gagnaversins Etix Everywhere að Borealis hefur uppbygging aukist til muna.

Berglind Rán Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri ON:

Við hjá ON fögnum þessu samstarfi sem er mikilvægur þáttur í því að sækja fram á raforkumarkaði. Viðskiptavinahópur okkar er afar fjölbreyttur með margvíslegri þarfir en áður og fellur samningur við Etix Everywhere Borealis vel að áherslum ON á fyrirtækjamarkaði. Það er afar jákvætt að fá fjölbreytta, alþjóðlega og vistvæna starfsemi til landsins sem sér kosti þess að nýta endurnýjanlega orku.

ON sækir víðar fram. Rafbílaeigendum fjölgar hratt og starfsemin í Jarðhitagarði ON við Hellisheiðarvirkjun vex. Þar er fjölnýting jarðhitans í fyrirrúmi. Það eru því blómlegir tímar í fjölbreyttri nýtingu jarðhitans sem með þessum samningi kemur þessari vaxandi atvinnugrein í landinu sem gagnaverin eru til góða.

Björn Brynjúlfsson, framkvæmdastjóri Etix Everywhere Borealis:

Eitt af samkeppnisforskotum gagnavera á Íslandi eru endurnýjanlegir orkugjafar á borð við jarðvarma og kalt veðurfar sem hentar vel til kælingar. Erlendir viðskiptavinir horfa í auknum mæli á þessa þætti og er því mikilvægt og jafnframt ánægjulegt að geta boðið þeim upp á endurnýjanlega orku úr jarðvarmavirkjunum ON. Samningur við ON tryggir félaginu orku til frekari uppbyggingar með erlendum viðskiptavinum.Etix Gagnaver

Undirritun - ON og Etix
Björn Brynjúlfsson og Berglind Rán Ólafsdóttir

ON hlaða á Vegamótum

Talmeinafræðingur á Akranesi sem veitir líka Snæfellingum þjónustu var sá sem fyrst hlóð bílinn sinn í nýrri hlöðu á Vegamótum sem opnuð var í gær. Elmar Þórðarson hefur ekið á rafbíl í fimm ár og fer sinna leiða nú um stundir á fjórhjóladrifinni Teslu til að sinna skólabörnum vestast á Snæfellsnesi.

Vistvæn ferðaþjónusta

Hlaðan á Vegamótum stendur við Rjúkanda þar sem fjölskyldan á Vegamótum rekur vistvæna ferðaþjónustu með hóteli, kaffihúsi og veitingastað. Íslensk náttúra er á fáum stöðum fegurri en á Snæfellsnesi og stutt er frá Rjúkanda að Snæfellsjökulsþjóðgarði. Hlaðan er búin hraðhleðslum af tvennum toga og hefðbundinni hleðslu. Hægt er að fá sér hressingu á kaffihúsinu eða veitingastaðnum á meðan hlaðið er. Þetta er önnur hlaðan sem ON opnar á Snæfellsnesi því í vor var hlaða opnuð í Ólafsvík. Mikil áhersla er á umhverfismál um allt Snæfellsnes. Sést það meðal annars í ýmsu samstarfi sveitarfélaga á nesinu, stefnu þjóðgarðsins og áherslu fjölmargra í ferðaþjónustu á umhverfismál. Að ferðafólk eigi nú betur með að ferðast á vistvænum bílum um Snæfellsnes er í takti við þessa sýn heimamanna.

Uppalinn í Staðarsveit

„Það er engin önnur skynsemi til á Íslandi en að nota innlenda orku“ segir Elmar Þórðarson. Hann er ekki alveg ókunnugur á Snæfellsnesi því hann er ættaður úr Staðarsveit en er nú búsettur á Akranesi. Hann er sérkennslu- og talmeinafræðingur og þjónar leik- og grunnskólabörnum á Snæfellsnesi, í Búðardal og á suður Vestfjörðum. . Þau eru orðin fimm árin síðan hann fékk sér fyrst rafbíl og ekur nú á Teslu X, fjórhjóladrifinni útgáfu af þessum öflugu rafbílum.

„Rafmagnsbílar eru mun skemmtilegri í akstri en hefðbundnir sprengihreyfilsbílar auk þess sem þeir menga lítið og þurfa minna viðhald. Það er gott að vera laus við tímareim, smurolíu og allt það sem vill bila eða þarf að fylgjast vel með í bílum sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti. Eftir 5 ára rafbílanotkun hefur viðhald nánast verið 0 kr. fyrir utan rúðuvökva og dekk. Ég hef reiknað það út að sparnaðurinn sem felst í því að aka rafbíl gerir það að verkum að þeir borga sig upp á nokkrum árum. Ég á tvo rafbíla sem eru í fullri notkun og mala gull sé miðað við rekstur á bensín- eða dísel bílum.“

Fjölgun rafbíla þjóðhagslega hagkvæm

Á dögunum var kynnt skýrsla fræðifólks við Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík sem staðfesti þetta mat Elmars, að rafbílarnir séu hagkvæmir neytendum. Fyrir utan hvern og einn bíleiganda er rafvæðing samgangna líka hagkvæm fyrir þjóðina í heild.

Staðarhaldarar
Fjölskyldan á Vegamótum, Elmar Þórðarson og fulltrúar ON

Sveinn og rafvirkjameistari báðar konur

Aníta Sigurbjörg Emilsdóttir fékk sveinsbréf í rafvirkjun nú á dögunum en meistarinn hennar var Kristín Birna Fossdal. Þetta mun hafa verið í fyrsta skipti hér á landi og trúlega víðar að hvorttveggja nemi og meistari í rafvirkjanámi eru konur. Báðar starfa þær hjá Orku náttúrunnar í Hellisheiðarvirkjun.

Í viðtali við Anítu í Morgunblaðinu kemur fram að upphaf áhuga hennar á faginu megi rekja til þess þegar skjárinn á farsímanum hennar brotnaði og síðar hátalarinn í sama tæki. Hún tók sér fyrir hendur að gera við símann sjálf. Þegar hana rak í vörðurnar og leitaði á verkstæði var henni boðin vinna þar.

Prófaði allskonar

Hún hafði ekki fundið sig í hefðbundnu bóknámi en sótti kvöldskóla með vinnu og færði sig síðan yfir í fullt nám í dagskóla. Þar Aníta kynningu á starfsemi Orkuveitu Reykjavíkur og áhugi kviknaði á stærri búnaði en farsímum og spjaldtölvum. Fyrir einu og hálfu ári hóf hún störf hjá Orku náttúrunnar og var þá þegar ákveðið að Kristín Birna yrði hennar meistari. Rétt eins og önnur fyrirtæki innan OR-samstæðunnar, býður ON upp á starfsnám í iðngreinum og er tiltekinn fjöldi námsplássa frátekinn fyrir konur og karla.

„Og ég fékk líka að prófa svo mikið meðan ég var á námssamningi hjá ON. Þá vann ég í götuljósum, húsarafmagni, virkjunum, veitum, ljósleiðara og bara öllu. Það er mikilvægt að prófa sem flest,“ segir Aníta í viðtalinu við Morgunblaðið og hikar ekki við að mæla með faginu.

Konum í rafiðngreinum fjölgað hratt

Kristín Birna lauk sveinsprófi í rafvirkjun árið 2001 og var þá níunda konan til ljúka því. Margar hafa bæst við síðan og eru þær nú um 50 talsins í rafiðngreinum. Kristín fékk meistararéttindi árið 2010. Kristín segir um Anítu í viðtalinu: „Hún á eftir að spjara sig. Hún er dugleg og vill læra. Núna er hún orðin fullnuma rafvirki og ég er bara nokkuð stolt af henni.“ Ekki er rafvirkinn síður ánægð með meistarann: „Hún er bráðgáfuð, ótrúlega fyndin, algjör snillingur og í dag mín helsta fyrirmynd í þessum geira,“ hefur Morgunblaðið eftir Anítu Sigurbjörgu Emilsdóttur, rafvirkja hjá Orku náttúrunnar.

Aníta Sigurbjörg Emilsdóttir og Kristín Birna Fossadal
Aníta Sigurbjörg Emilsdóttir og Kristín Birna Fossadal (Ljósmynd: Gunnar Svanberg)

Pages