Niðurstöður geislamælinga liggja fyrir

Eins og fram hefur komið hafa Geislavarnir ríkisins unnið að mati á styrk náttúrlegra geislavirkra efna í útfellingum í jarðvarmavirkjunum á Íslandi, meðal annars á Nesjavöllum og Hellisheiði.

Við Nesjavallavirkjun sýndu handmælar hvergi aukna geislavirkni og gammarófsgreining á tveimur sýnum sýndi sömu niðurstöðu.

Við Hellisheiðarvirkjun sýndu handmælar geislavirkni örlítið yfir bakgrunni á þremur stöðum. Sýni voru tekin þar og sett í gammarófsgreiningu hjá Geislavörnum. Í einu sýnanna, úr svokallaðri dropasíu, virtist aukin geislavirkni. Vegna þess hve geislavirknin er lítil og nálægt greiningarmörkum þá voru tvö sýni send til greiningar í Finnlandi. Nú hafa niðurstöður borist og hafa Geislavarnir birt frétt þess efnis á vef sínum.

Niðurstöðurnar voru kynntar fyrirtækinu á fundi með Geislavörnum fyrr í dag, ásamt fulltrúum frá Vinnueftirlitinu og Heilbrigðiseftirliti Suðurlands.

Niðurstaða fundarins var sú að möguleg geislun vegna þessara útfellinga er langt undir þeim mörkum sem starfsmenn mega vera útsettir fyrir samkvæmt reglugerð. Þar sem umræddar útfellingar mælast með aukna náttúrulega geislavirkni mun ON sækja um tilskilin leyfi fyrir geymslu þeirra í þrjú ár eða þar til geislavirku efnin hafa brotnað niður og hægt er að farga útfellingunum á hefðbundinn hátt. Um lítið magn er að ræða sem þarf að geyma eftir að dropasíur hafa verið hreinsaðar.

Til fróðleiks sýnir myndin hér að neðan þessar niðurstöður í samhengi við geislun sem fólk verður fyrir í daglegu á lífi og þau mörk sem í gildi eru um leyfileg mörk geislunar á ári.

Nánari upplýsingar veitir Marta Rós Karlsdóttir, forstöðumaður auðlinda ON, s: 591-2740

geislun-i-daglegu-lifi
Geislun í daglegu lífi