Magnea hjá ON fær umhverfisverðlaun Ölfuss 2017

Magnea Magnúsdóttir, umhverfis- og landgræðslustjóri Orku náttúrunnar, fær Umhverfisverðlaun Ölfuss 2017 fyrir brautryðjendaverkefni við uppgræðslu á Hellisheiði. Hún tók við verðlaununum á sumardaginn fyrsta, 20. apríl, úr hendi Bjartar Ólafsdóttur umhverfisráðherra.

Upphaflega skólaverkefni

Verkefni Magneu felur í sér að nýttur er staðargróður til að græða upp svæði sem var raskað við virkjunarframkvæmdir á Hellisheiði eða önnur umsvif fyrr á tíð. Ávinningurinn er sá að ásýnd svæðanna verður svipuð því og áður en raskið varð og til þess nýtir Magnea gjarna mosa eða annar móagróður, sem setur mark sitt á umhverfið.

Magnea þróaði árangursríkar aðferðir meðan hún var í meistaranámi í Landbúnaðarháskólanum og gerði þá tilraunir á Hellisheiði. Að námi loku var hún ráðin landgræðslustjóri ON og hefur haldið áfram að þróa aðferðirnar. Þær felast meðal annars í því að safna fræi staðargróðursins og blanda það næringarefnum sem koma einnig í veg fyrir að fræin fjúki. Súrmjólk hefur reynst öflugt íblöndunarefni í þessu skyni. Þá hefur Magnea gengist fyrir söfnun á mosaþembum þar sem framkvæmdir standa fyrir dyrum, geymslu þeirra í frystigámum og nýtt þær síðan til uppgræðslu að framkvæmdum loknum.

Fyrirmynd annarra

„Mér þykir afskaplega vænt um að verkefnið fái þessa viðurkenningu,“ segir Magnea. „Það er okkur hjá ON mikil hvatning, ekki bara til að ganga sem best frá heldur líka í öðrum umhverfisverkefnum sem við vinnum að.“ Magnea segist þeirrar skoðunar að það skipti þó kannski enn meira máli að „Hellisheiðaraðferðirnar“ eins og þær eru nú kallaðar, hafi reynst svo árangursríkar að aðrir eru farnir að beita þeim. „Það er frábært að fyrirtæki sem standa í umfangsmiklum framkvæmdum á borð við Vegagerðina og Landsvirkjun hafi í þessu fundið leiðir til að bæta rask og draga þannig úr umhverfisáhrifum. Þannig nýtist þessi vinna sem allra flestum,“ bætir Magnea við.

Björt Ólafsdóttir umhverfisráðherra gerði þetta einmitt að umtalsefni í ávarpi í dag. Hún sagði fréttir af þessum góða árangri hafa breiðst út. „Það er umhverfinu í hag að þessum aðferðum sé beitt sem víðast og þannig stuðlað að því að viðhalda líffræðilegum fjölbreytileika íslensku flórunnar,“ sagði Björt.

Hólmfríður Sigurðardóttir, umhverfisstjóri OR, Björt Ólafsdóttir umhverfisráðherra, Magnea Magnúsdóttir Umhverfis- og landgræðslustjóri ON og Sæunn Kolbrún Þórólfsdóttir verkefnastjóri hjá umhverfis- og landgræðslumálum ON
Frá vinstri: Hólmfríður Sigurðardóttir, umhverfisstjóri OR, Björt Ólafsdóttir umhverfisráðherra, Magnea Magnúsdóttir Umhverfis- og landgræðslustjóri ON og Sæunn Kolbrún Þórólfsdóttir verkefnastjóri hjá umhverfis- og landgræðslumálum ON