ON lokar hringnum

ON hyggst meira en tvöfalda fjölda hraðhleðslustöðva fyrir rafbíla og velja nýjum stöðvum stað þannig að hringnum um Ísland verði lokað og hægt verði að fara allan hringveginn á rafmagnsbíl. ON mun líka setja upp hefðbundnar hleðslustöðvar meðal annars þar sem hraðhleðslustöðvar eru fyrir. Fyrirtækið fékk hæsta styrk sem atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið veitti til verkefna af þessu tagi nú laust fyrir áramót.

„Þökkum traustið"

Styrkurinn sem ON hlaut nemur 57,1 milljón króna og er féð eyrnamerkt uppbyggingu 14 nýrra hraðhleðslustöðva og fjögurra hefðbundinna. Það er um helmingur kostnaðarins við að setja stöðvarnar upp. Fyrir á ON net 13 hraðhleðslustöðva og hefur verið í forystu uppbyggingar innviða fyrir rafvæðingu samgangna hér á landi. Á næstu árum hyggst ON setja upp enn fleiri hefðbundnar stöðvar en styrkurinn nær til, á eigin vegum og í samstarfi við aðra.

Sjá nánar um hraðhleðslustöðvar ON hér

„Við þökkum það traust til okkar sem þessi styrkur frá ráðuneytinu er til marks um,“ segir Bjarni Már Júlíusson, framkvæmdastjóri ON. „Við Íslendingar vinnum allt okkar rafmagn úr endurnýjanlegum orkulindum og ekkert land í heiminum hentar betur fyrir rafbíla en einmitt Ísland. Vegalengdir hér eru stuttar miðað við mörg lönd og með því að losa okkur við bensín og díselbíla getum við lagt nokkuð þungt lóð á vogarskálar loftslagsmála. Við það má svo bæta þeim kosti að þjóðin mun spara sér mikla peninga í innflutningi á jarðefnaeldsneyti, peninga sem nýta má með betri hætti. Og það er ekki eftir neinu að bíða, nú þegar eru komnir rafbílar á markaðinn af ýmsum gerðum sem falla vel í kramið hjá almenningi,“ bætir Bjarni Már við.

Öflugt upplýsingakerfi á leiðinni

Fyrstu hraðhleðslustöðvar ON voru settar upp fyrir rúmum tveimur árum. Nú eru þær 13 talsins og eru víðsvegar um sunnan- og vestanvert landið auk tveggja stöðva á Akureyri. Bjarni Már segir að lagt hafi verið af stað í uppbygginguna sem tilraunaverkefni sem nú sé að ljúka. „Tilraunin hefur tekist vel því við höfum margt lært og rafbílaeigendur hafa bent okkur á ýmsar úrbætur sem við höfum ráðist í á þessum misserum.“

Bjarni Már segir að öflug upplýsingagjöf til rafbílaeigenda sé lykilatriði og að meðfram fjölgun hleðslustöðvanna vinni ON nú að því að setja upp smáforrit sem í senn gefi upplýsingar um staðsetningu stöðvanna, ástand þeirra, hvort þær eru uppteknar á hverjum tíma og veiti rafbílaeigendum sem þær nota viðskiptaupplýsingar. „Á tilraunatímanum hefur rafmagnið verið frítt en samhliða aukinni þjónustu förum við að selja það. Íslenska rafmagnið verður mun ódýrari kostur en innflutta jarðefnaeldsneytið og við viljum að þetta nýja orkukerfi fyrir samgöngur beri sig með tíð og tíma,“ segir Bjarni Már.

Leitar samstarfs

ON mun nú þegar ráðast í að leita samstarfs um uppsetningu nýju hraðhleðslustöðvanna við hringveginn. Þeim þarf að finna hentugan stað með tilliti til vega, aðgangs að rafmagni og fjarlægðar til næstu hraðhleðslustöðvar. „Við höfum tiltekna staði í huga og munum einhenda okkur í að hafa samband við heimafólk og aðra hagsmunaaðila til að við getum lokað hringnum sem fyrst. Styrkveitingarnar sýna að fjöldi aðila hefur áhuga á orkuskiptum í samgöngum og það er frábært að fleiri komi að verkefninu,“ segir Bjarni Már.

Í dag eru hraðhleðslustöðvar ON 13 talsins