Lífríki Andakílsár réttir úr kútnum

Lífríki í Andakílsá er óðum að taka við sér eftir að mikill aur barst í ána við ástandsskoðun á inntaksstíflu Andakílsárvirkjunar í fyrrasumar. Samkvæmt áfanganiðurstöðum Hafrannsóknastofnunar er enn nokkurt set í farveginum, einkum þar sem straumur en minnstur, en búsvæði gróðurs og dýra endurheimtist tiltölulega hratt. Hrygning í fyrrasumar virðist hafa tekist vel og mikill fjöldi eins árs laxaseiða fannst í ánni í sumar.

Gripið til mótvægisaðgerða

Í maí 2017 var inntakslón Andakílsárvirkjunar, sem er í eigu Orku náttúrunnar, tæmt til að ástandsmeta stíflumannvirki og lokubúnað. Mistök voru gerð sem ollu því að mikið botnset úr lóninu barst niður í farveg Andakílsár, sem auk orkuvinnslunnar er laxveiðiá. Í samráði við hagsmunaaðila og vísindamenn var þegar í stað gripið til mótvægisaðgerða. Mesta setið var hreinsað úr hyljum, lax tekinn til seiðaeldis og ákveðið var engin laxveiði yrði stunduð þar sumrin 2017 og 2018. Um 200 laxar veiðast ár hvert í ánni. Samhliða var ákveðið að vakta lífríkið í ánni til að meta árangur aðgerða jafnharðan.

Lagt til að veitt verði á ný 2020

Nú liggja fyrir bráðabirgðaniðurstöður fiskifræðings á Hafrannsóknastofnun eftir rannsóknir sumarsins 2018. Sérstaklega er hugað að laxastofninum í ánni og benda rannsóknir til að hrygning bæði nú í sumar og í fyrra hafi tekist vel. Hinsvegar hafi sá árgangur sem var eins árs þegar slysið varð orðið mjög illa úti en tveggja ára seiðum vegnar örlítið betur. Til að vega á móti þessum skörðum í stofninum hefur verið ákveðið að 30.000 seiðum verði sleppt í ána á næsta ári og þarnæsta. Þá er lagt til að veiði hefjist á ný sumarið 2020.

Tiltölulega hröð endurheimt vatnalífs

Samhliða því að set hefur skolast úr árbotninum hafa þörungar og smádýr tekið við sér. Endurheimt vatnalífs á búsvæðum Andakílsár hefur gerst tiltölulega hratt og ekki er talið ólíklegt að á næstu tveimur til þremur árum verði magn og samfélagsgerð botnlægra þörunga og hryggleysingja sambærileg við það sem var áður en setið barst í ána.

Von er á skýrslu Hafrannsóknastofnunar á fyrstu mánuðum ársins 2019. Að henni fenginni mun starfsfólk Orku náttúrunnar meta stöðuna betur með vísindafólki og hagsmunaaðilum og ákveða framhald aðgerða, rannsókna og vöktunar.

Andakíll
Andakílsá