Lagning Hverahlíðarlagnar hefst á næstu vikum

Lagning gufulagnar sem tengir jarðhitasvæðið í Hverahlíð á Hellisheiði við Hellisheiðarvirkjun hefst á næstu vikum.

Tilboð í lagningu gufulagnar, sem verður um 5 kílómetra löng, hafa verið opnuð og hljóðaði lægsta tilboð upp á tæpa 2,5 milljarða króna. Leyfi fyrir framkvæmdinni liggja fyrir. Leið lagnarinnar var valin með tilliti til þess að hún yrði sem minnst sýnileg frá þjóðveginum og sem minnst rask yrði. Þá var lagt kapp á að svæðið geti nýst áfram til útivistar. Þannig verður hægt að komast yfir nýju lögnina á fimm stöðum. Skiltum með upplýsingum um hvar hægt verður að komast yfir lögnina ásamt merktum gönguleiðum á svæðinu verður komið fyrir á völdum stöðum, til dæmis á bílastæði við Hellisheiðarvirkjun, á bílastæði við gatnamót Suðurlandsvegar og Gígahnúksvegar og á áningarstað sem Orka náttúrunnar fyrirhugar að koma upp á móts við Gígahnúk.

Unnið á sama tíma og breikkun Suðurlandsvegar

Taka á lögnina í notkun í árslok 2015 og á fullnaðarfrágangi að ljúka á árinu 2016. Framkvæmdir verða því að nokkru leyti samhliða framkvæmdum Vegagerðarinnar við breikkun Suðurlandsvegar á Hellisheiðinni, sem hófust nú í ár. Nú er Vegagerðin að gera undirgöng undir Suðurlandsveginn fyrir gangandi, hjólandi og ríðandi og samhliða mun Vegagerðin leggja steyptan stokk undir veginn fyrir gufulögnina.

Þrívíddarlíkan af Hverahlíðarlögn

Í myndskeiðinu hér fyrir neðan má sjá þrívíddarlíkan sem gert var af lögninni til að nota við hönnun hennar svo draga mætti úr sýnileika lagnarinnar. Í myndbandinu sjást einnig mannvirki við Hverahlíð.

Hagkvæmasta og öruggasta leiðin til að afla gufu

Greint var frá því í júní í fyrra að efla þyrfti gufuöflun til framleiðslu á rafmagni og heitu vatni í Hellisheiðarvirkjun. Afráðið var að nýta borholur, sem þegar höfðu verið boraðar við Hverahlíð, frekar en að bora nýjar nær virkjuninni. Þar væri ekki á vísan að róa og skynsamlegra að nýta þá fjárfestingu sem fyrir var. Borholurnar undir Hverahlíð voru boraðar á árunum 2007 og 2008 og virðast öflugar. Hellisheiðarvirkjun var fullbyggð árið 2011. Það er kostur að gufan í Hverahlíð er þurrari en á núverandi vinnslusvæði og dregur það úr þörf á niðurrennsli vinnsluvatns. Tengingin hefur engin áhrif á útblástur frá virkjuninni þar sem ekki er verið að auka afköst hennar. Stjórn Orkuveitunnar ákvað síðasta haust að ráðast í verkið, að undangenginni umræðu í sveitarstjórnum eigenda. Skipulagsvinnu vegna tengingarinnar er lokið. Orka náttúrunnar, sem tók við virkjanarekstri og raforkusölu OR um síðustu áramót, bauð verkið út í vor. Það felur í sér lagningu gufu- og skiljuvatnslagna um fimm kílómetra leið á milli Hverahlíðar og Hellisheiðarvirkjunar, lagningu raf- og stýristrengja sömu leið auk byggingar skiljustöðvar.

Generic Image
Hverahlíð