Kraftmikill fjölskyldudagur á Hellisheiði laugardaginn 27. maí

Laugardaginn 27. maí verður Jarðhitasýning ON í Hellisheiðarvirkjun opin gestum og gangandi og eru börn sérstaklega boðin velkomin. Sýningin er hin umfangsmesta hér á landi um nýtingu okkar á jarðhita og hana sækja tugir þúsunda ár hvert.

Dagskrá

Dagskrá hefst upp úr hádegi, kl. 12:15 með snörpum kynningum á nokkrum viðfangsefnum Orku náttúrunnar. Þar má nefna;

  • Uppbyggingu innviða fyrir rafbíla, hlöðurnar sem spretta upp hver af annarri meðfram hringveginum.
  • Uppgræðslu á Hellisheiði en landgræðslustjóri ON fékk nýverið umhverfisverðlaun sveitarfélagsins Ölfuss fyrir það framtak.
  • Hvernig gufu úr iðrum jarðar er breytt í rafmagn og heitt vatn í virkjuninni.


Klukkan 13:00 munu Villi vísindamaður og Sveppi spjalla við börnin um orku og gera tilraunir eins og þeim einum er lagið og að því búnu verður sérstök leiðsögn fyrir börn um Jarðhitasýninguna.

Veitingar verða í boði; ís frá Kjörís, pylsur úr Grillvagninum og Coke og Trópí frá Vífilfelli.

Ein aflmesta virkjun landsins

Hellisheiðarvirkjun er ein aflmesta virkjun hér á landi. Þar er framleitt rafmagn fyrir heimili og fyrirtæki og hlutur hennar í að útvega heitt vatn í hitaveituna á höfuðborgarsvæðinu fer sífellt vaxandi. Þar hefur verið rekin Jarðhitasýning frá árinu 2006. Hún hefur mikið aðdráttarafl meðal ferðafólks og eru gestir, sem greiða aðgangseyri á sýninguna, hartnær hundrað þúsund á ári. Með fjölskyldudeginum viljum við gefa sérstaklega Íslendingum kost á að sjá sýninguna og njóta þess fróðleiks sem á henni er að finna.

 

Opinn dagur á jarðhitasýningu