Íslenskur jarðhitafróðleikur til Ástralíu

Fimm erindi starfsmanna Orku náttúrunnar (ON) og Orkuveitu Reykjavíkur (OR) eru á dagskrá stærstu jarðhitaráðstefnu heims, sem fram fer í Ástralíu síðari hluta aprílmánaðar.

World Geothermal Congress er haldin á fimm ára fresti og verður árið 2020 á Íslandi. ON og OR eru á meðal stuðningsaðila hennar.

Bjarni Már Júlíusson, forstöðumaður tækniþróunar ON, mun á ráðstefnunni fjalla um þann árangur sem náðst hefur í glímunni við útblástur brennisteinsvetnis frá Hellisheiðarvirkjun. Fjöldi annarra Íslendinga flytja erindi á ráðstefnunni en á 8. tug Íslendinga munu sækja hana.

Það er Alþjóða jarðhitasambandið sem gengst fyrir ráðstefnunni í samstarfi við jarðhitafélög í Ástralíu og á Nýja Sjálandi. Ráðstefnan í apríl er fimmta ráðstefnan. Sú fyrsta haldin í Flórens á Ítalíu 1995, Japan hýsti hana á aldamótaárinu, Tyrkland 2005 og WCG 2010 var á Balí. Eftir harða samkeppni, einkum við Þýskaland og Bandaríkin, var ákveðið að ráðstefnan 2020 verði í Reykjavík. Undirbúningur hennar er þegar hafinn.

Í apríl á næsta ári verður alþjóðlega ráðstefnan Iceland Geothermal haldin hér á landi í þriðja sinn.

Generic Image