ON í samstarf við Zipcar

Deilibílaþjónustan Zipcar er komin til landsins og hefur samið við ON til að stuðla að því að rafbílar verði nýttir í þjónustuna.

Rafmagnsdeilibílar á leiðinni

Zipcar er alþjóðlegt fyrirtæki sem býður upp á deilibílaþjónustu. Hún felst í því að hægt er að sækja sér bíl á fyrirfram ákveðnum stað og skila honum aftur þangað. Markmiðið er að draga úr þörf fyrir að eiga bíl og fækka þannig bílum í umferð. Smáforrit eða app er notað til að skrá sig í þjónustuna og bóka bíl.

Fyrstu stöðvar Zipcar hér á landi voru opnaðar við Háskólann í Reykjavík og Landspítalann í dag. Við það tækifæri gerðu Zipcar og ON með sér samning um uppbyggingu innviða fyrir þjónustuna þannig að rafbílar geti verið í deilinotkun þegar fram í sækir.

Þáttur í umhverfisvænum lífsstíl

Í frétt frá Zipcar segir að það að zippa sé frábær viðbót við umhverfisvænan og bíllausan lífsstíl, strætó, hjólreiðar og gönguferðir. Zipcar er til reiðu fyrir notendur allan sólarhringinn og meðlimir spara bæði tíma og peninga miðað við að eiga bíl. Hægt er að bóka Zipcar frá hálftíma upp í sólarhring eftir þörfum og eldsneyti og tryggingar eru innifalin í verðinu.

„Við erum mjög stolt af því að bjóða upp á deilibílaþjónustu Zipcar hér á landi“ segir Vilhjálmur Sigurðsson framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs ALP í fréttinni. „Deilibílar eru einn af ferðamátum framtíðarinnar og þeir geta til dæmis brúað bilið fyrir þá sem velja bíllausan lífsstíl eða þá sem þurfa bara öðru hverju á bíl að halda. Við leggjum líka mikið upp úr umhverfismálunum því það er ótvírætt mun umhverfisvænna að nota Zipcar en að eiga bíl.“

"Rafmagn er framtíðin í samgöngum. ON er brautryðjandi í uppbyggingu innviða og við erum svakalega ánægð með að í dag skuli bæði Zipcar og Háskólinn í Reykjavík taka mikilvæg skref til að hraða þessari þróun" segir Áslaug Thelma Einarsdóttir forstöðumaður einstaklingsmarkaðs ON.

Ísland er með áttundu mestu einkabílaeign í heiminum samkvæmt Alþjóða heilbrigðisstofnuninni (með bíl fyrir hverja 1,5 íbúa). Rannsóknir Transportation Research Board og National Academy of Sciences í Bandaríkjunum sýna að hver Zipcar bíll kemur í stað 13 einkabíla á götunum og minnkar því útblástur frá bílaumferð umtalsvert. Við þetta bætist að um 90% Zipcar notenda aka minna en 9000 km árlega sem sparar um 121 milljón lítra af bensíni og olíu miðað við meðalakstur. Hver Zipcar notandi getur því minnkað kolefnisfótspor sitt um allt að 500 kg á ári og lækkað ferðakostnað sinn um allt að 70%.

Eldsneyti, tryggingar og viðhald á bílnum er innifalið í mánaðargjaldinu, frá 500 krónum á mánuði. Meðlimir Zipcar geta því haft aðgang að bíl allan sólarhringinn, allt árið, fyrir aðeins 7000 krónur á ári.

Zipcar
Frá vinstri: Hulda Steingrímsdóttir umhverfisstjóri Landsspítalans, Áslaug Thelma Einarsdóttir forstöðumaður einstaklingsmarkaðs ON, Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Vilhjálmur Sigurðsson framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs ALP