Húsvíkingar fá hraðhleðslu

ON hefur tekið í notkun nýja hlöðu með hraðhleðslu fyrir rafbíla á lóð Orkunnar á Húsavík. Það var Árni Sigurbjarnarson, einn af stofnendum hvalaskoðunarfyrirtækisins Norðursiglingar, sem fyrstur hlóð rafbíl í nýju hlöðunni, forláta Teslu. Hraðhleðslan mun auðvelda Árna að hlaða í heimabyggð en næstu hlöður ON eru á Akureyri og Mývatni.

Viðstaddir fyrstu hleðsluna voru auk Árna, Guðjón Hugberg Björnsson, tæknistjóri hjá ON, Arngrímur Arnarson, markaðsstjóri Norðursiglingar og Axel Rúnar Eyþórsson, sérfræðingur í rafmagnsmálum hjá ON.

Árni, sem nýlega seldi hlut sinn í Norðursiglingu, segir markmið fyrirtækisins ætíð hafa verið að efla sjálfbæra ferðaþjónustu og að stefna þess sé að vera leiðandi í umhverfisvænni ferðaþjónustu við strendur landsins. Fyrirtækið á og rekur tvo hvalaskoðunarbáta sem ganga fyrir rafmagni. Með slíkum bátum má lágmarka útblástur koltvísýrings og minnka vélarhljóð, sem veldur minna ónæði fyrir hvalina.

Hleðslunetið þéttist á Norðurlandi

Hraðhleðslan á Húsavík er sú 36. hleðslan sem Orka náttúrunnar setur upp til að þjóna rafbílaeigendum. Hringvegurinn er þegar opinn rafbílaeigendum þar sem ON hefur varðað hann hlöðum. Á næstu vikum og mánuðum mun net þessara innviða orkuskipta í samgöngum á Norðurlandi þéttast með væntanlegum hraðhleðslum á Kópaskeri og Vopnafirði og hleðslum á Dalvík, á Laugum, í Ásbyrgi og á Raufarhöfn.

Í smáforritinu ON Hleðsla er hægt að sjá allar hlöður ON, hvernig tengjum þær eru búnar og hvort þær eru á lausu. Jafnframt býður appið upp á að sjá hlöður annarra fyrirtækja sem opnar eru almenningi og notendur þess geta fengið aðstoð frá kortavef Google til að finna skemmstu leiðina að hlöðunum.

ON Hleðsla fyrir Android

ON Hleðsla fyrir iOS

Kort af hlöðum ON

Opnun Hlöðu á Húsavík
Guðjón, Arngrímur, Árni og Axel Rúnar