Hraðhleðslustöðvar ON þjóna fleiri bíltegundum

ON vinnur nú að því að uppfæra allar hraðhleðslustöðvar fyrirtækisins svo rafdælurnar þjóni sem flestum gerðum rafbíla. Fyrsta uppfærða stöðin er komin í notkun og er hún við Smáralind.

ON hlaut nú í haust Umhverfisverðlaun atvinnulífsins fyrir þetta metnaðarfulla verkefni.

Mismunandi staðlar

Snemma árs 2014 hóf ON, í samstarfi við fjölda aðila, að setja upp hraðhleðslustöðvar fyrir rafbíla. Þær uppfylltu svokallaðan ChadeMo staðal, sem er japanskur að uppruna. Síðan þá hafa Evrópuríki komið sér saman um Combo-staðalinn og AC43 er sá þriðji. Tesla er með eigin staðal en eigendur slíkra bíla geta notað stöðvarnar með millistykki. Með uppfærslunni munu allar stöðvarnar þjóna eigendum rafbíla samkvæmt algengustu stöðlunum, Combo og ChadeMo og fimm þeirra samkvæmt AC43 staðlinum. Hægt er að fylgjast með framvindu verkefnisins hér.

Mikil fjölgun rafbíla

Bílum sem eingöngu ganga fyrir rafmagni hefur fjölgað mikið síðustu misseri. Á myndritinu sést hvernig ON hefur keppst við að fjölga hraðhleðslustöðvum í takti við þá þróun. Flestir eru rafbílarnir á Suðvesturhorninu en þeim fjölgar líka víða um land.

Tvær stöðvar á Akureyri

Nú vinnur ON að því í samstarfi við Vistorku á Akureyri að koma upp tveimur hraðhleðslustöðvum í bænum. Reikna má með að þær komist í rekstur fljótlega upp úr áramótum.

Minni mengun

Það er stefna ON að stuðla að umhverfisvænni samgöngum annars vegar með því að nota rafbíla í eigin rekstri og svo með því að styrkja innviðina og þjóna rafbílaeigendum þannig betur. ON gerðist á dögunum aðili að loftslagsyfirlýsingu, þar sem Reykjavíkurborg og Festa hvöttu fyrirtæki og stofnanir til að setja fram markmið í loftslagsmálum. Yfirlýsing um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og minnka úrgang í starfseminni rímar bæði vel við stefnu ON og ekki síður starfsemina sjálfa; að framleiða og selja endurnýjanlega raforku auk heits vatns frá virkjunum fyrirtækisins.

ON hraðhleðslustöðin við Smáralind
Hraðhleðslustöðin við Smáralind