Hnitaskrá af gufulögnum á Hellisheiði

ON hefur nú gefið út hnitaskrá fyrir GPS-tæki af öllum gufu- og heitavatnslögnum á Hengilssvæðinu. Þetta er gert til að efla öryggi útivistarfólks, einkum þeirra sem ferðast um heiðina á vélsleðum eða jeppum að vetrarlagi. Hægt er sækja skrána hér að neðan.

Við leggjum áherslu á að fólk geti nýtt virkjanasvæðið á Nesjavöllum og Hellisheiði til útivistar með öruggum hætti. Um svæðin liggja gufulagnir frá borholum og nú nýverið var jarðhitasvæðið við Hverahlíð tengt Hellisheiðarvirkjun með gufulögn. Lagnirnar geta verið varasamar, einkum í miklum snjó, því það geta myndast holrúm í snjónum í kringum þær. Þess hefur orðið vart öðru hvoru síðustu ár að farartæki hafi rekist utan í lagnirnar.

Viðvörunarskilti hafa verið sett upp sem vara við hættunni og nú hefur verið útbúin hnitaskrá sem útivistarfólk getur hlaðið inn í staðsetningartækin sín og þá koma allar gufulagnir á Hengilssvæðinu fram á uppdráttunum í tækjunum sem og heitavatnslögnin frá Nesjavöllum í bæinn. Þær yfirkeyrslur sem útbúnar hafa verið fyrir ferðafólk eru hnitsettar í skránni.

Við viljum benda útivistarfólki á að skrárnar eru gögn til að styðjast við á ferðum sínum, í þeim geta leynst gloppur eða villur og fólk ferðast á eigin ábyrgð um virkjanasvæðin.

 

 

Jeppi í snjó á Hellisheiði
Jeppi fastur í snjó