Hlöður teknar í notkun á Landakoti og Kleppi

Settar hafa verið upp ON hleðslur fyrir rafbíla á tveimur starfsstöðvum Landspítala; á Landakoti og Kleppi. Um er að ræða tilraunaverkefni með Landspítala og er það hluti af umhverfisstefnu og loftslagsmarkmiðum hans.

Landspítalinn leggur þannig sitt af mörkum við orkuskipti í samgöngum með því að auðvelda starfsfólki aðgang að hleðslum fyrir rafbíla á nokkrum starfsstöðvum sínum. Síðar í sumar verða ON hlöður settar upp við starfsstöðvar spítalans við Hringbraut og í Fossvogi.

ON sér um uppsetningu og rekstur stöðvanna sem allar gerðir rafbíla geta nýtt sér. Starfsfólk Landspítala og aðrir rafbílaeigendur þurfa að sækja um ON lykil á vefsíðu ON til þess að geta nýtt sér hleðslurnar. Þær verða gjaldfrjálsar fyrst um sinn, en í haust þegar allir staðir eru komnir upp greiða viðskiptavinir fyrir þjónustuna.

Hleðslurnar eru 22kW en sérhver rafbíll stýrir hraða hleðslunnar sjálfur. Flestar rafbílategundir taka inn á sig ca. 6-7kWh á klst. og eru því um 4-5 klst. að fullhlaða sig í þessum hleðslum.

Það er sameiginleg skoðun ON og Landspítala að mikilvægt er að hraða orkuskiptum í samgöngum með því að efla innviði með þéttu neti hleðslustöðva og þróunin hefur verið jákvæð síðustu misseri.

Generic Image
Hafrún Þorvaldsdóttir, sölustjóri ON og Ingólfur Þórisson, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Landspítala taka formlega í notkun hlöðuna við Landakot. Guðjón Kristjánsson, starfsmaður Landspítala hlóð fyrstu hleðsluna á rafbíl sinn.