ON hlaða á Vegamótum

Talmeinafræðingur á Akranesi sem veitir líka Snæfellingum þjónustu var sá sem fyrst hlóð bílinn sinn í nýrri hlöðu á Vegamótum sem opnuð var í gær. Elmar Þórðarson hefur ekið á rafbíl í fimm ár og fer sinna leiða nú um stundir á fjórhjóladrifinni Teslu til að sinna skólabörnum vestast á Snæfellsnesi.

Vistvæn ferðaþjónusta

Hlaðan á Vegamótum stendur við Rjúkanda þar sem fjölskyldan á Vegamótum rekur vistvæna ferðaþjónustu með hóteli, kaffihúsi og veitingastað. Íslensk náttúra er á fáum stöðum fegurri en á Snæfellsnesi og stutt er frá Rjúkanda að Snæfellsjökulsþjóðgarði. Hlaðan er búin hraðhleðslum af tvennum toga og hefðbundinni hleðslu. Hægt er að fá sér hressingu á kaffihúsinu eða veitingastaðnum á meðan hlaðið er. Þetta er önnur hlaðan sem ON opnar á Snæfellsnesi því í vor var hlaða opnuð í Ólafsvík. Mikil áhersla er á umhverfismál um allt Snæfellsnes. Sést það meðal annars í ýmsu samstarfi sveitarfélaga á nesinu, stefnu þjóðgarðsins og áherslu fjölmargra í ferðaþjónustu á umhverfismál. Að ferðafólk eigi nú betur með að ferðast á vistvænum bílum um Snæfellsnes er í takti við þessa sýn heimamanna.

Uppalinn í Staðarsveit

„Það er engin önnur skynsemi til á Íslandi en að nota innlenda orku“ segir Elmar Þórðarson. Hann er ekki alveg ókunnugur á Snæfellsnesi því hann er ættaður úr Staðarsveit en er nú búsettur á Akranesi. Hann er sérkennslu- og talmeinafræðingur og þjónar leik- og grunnskólabörnum á Snæfellsnesi, í Búðardal og á suður Vestfjörðum. . Þau eru orðin fimm árin síðan hann fékk sér fyrst rafbíl og ekur nú á Teslu X, fjórhjóladrifinni útgáfu af þessum öflugu rafbílum.

„Rafmagnsbílar eru mun skemmtilegri í akstri en hefðbundnir sprengihreyfilsbílar auk þess sem þeir menga lítið og þurfa minna viðhald. Það er gott að vera laus við tímareim, smurolíu og allt það sem vill bila eða þarf að fylgjast vel með í bílum sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti. Eftir 5 ára rafbílanotkun hefur viðhald nánast verið 0 kr. fyrir utan rúðuvökva og dekk. Ég hef reiknað það út að sparnaðurinn sem felst í því að aka rafbíl gerir það að verkum að þeir borga sig upp á nokkrum árum. Ég á tvo rafbíla sem eru í fullri notkun og mala gull sé miðað við rekstur á bensín- eða dísel bílum.“

Fjölgun rafbíla þjóðhagslega hagkvæm

Á dögunum var kynnt skýrsla fræðifólks við Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík sem staðfesti þetta mat Elmars, að rafbílarnir séu hagkvæmir neytendum. Fyrir utan hvern og einn bíleiganda er rafvæðing samgangna líka hagkvæm fyrir þjóðina í heild.

Staðarhaldarar
Fjölskyldan á Vegamótum, Elmar Þórðarson og fulltrúar ON