Hagnýting jarðhitalofttegunda könnuð

Carbon Recycling International (CRI) og Orka náttúrunnar (ON) ætla sameiginlega að kanna möguleika á hagnýtingu lofttegunda sem falla til við nýtingu jarðhita í Hellisheiðarvirkjun.

Vistvænt eldsneyti og efnavara til iðnaðarnota eru á meðal hugsanlegra afurða.

Með tilkomu nýrrar lofthreinsistöðvar við Hellisheiðarvirkjun hafa skapast aukin tækifæri til hagnýtingar á koltvísýringi og brennisteinsvetni. Þetta eru lofttegundir sem koma upp með jarðhitavökvanum, sem orka er unnin úr í virkjuninni. CRI hefur áhuga á að nýta þessi efni til framleiðslu metanóls, sem er vistvænt eldsneyti, og brennisteinssýru, sem er ein algengasta efnavara á heimsmarkaði.

KC Tran, forstjóri og einn af stofnendum CRI, segist vonast til að samstarf fyrirtækjanna verði árangursríkt. „Með því að samnýta þekkingu CRI og ON, vonumst við til að sýna fram á að hagnýta megi gastegundir úr jarðhitaauðlindinni á Hellisheiði til verðmætasköpunar, eins og við nýtum þegar koltvísýring úr jarðhita til framleiðslu á vistvænu eldsneyti í verksmiðju okkar í Svartsengi.”

Páll Erland, framkvæmdastjóri ON, segir að með samstarfinu við CRI séu hugmyndir um fjölnýtingu jarðhitans á Hellisheiði komnar á nýtt stig. „Við fögnum hverju tækifæri til aukinnar verðmætasköpunar. Það eru margvíslegir straumar sem koma upp með jarðhitavökvanum og við viljum gjarna breyta þeim í tekjur,“ segir Páll.

Verðmætar efnavörur til skoðunar

Í viljayfirlýsingunni er meðal annars kveðið á um að fyrirtækin muni rannsaka magn nýtilegra lofttegunda, lóðamál og leyfisveitingar vegna framkvæmda og starfsemi hugsanlegrar efnavinnslu.

Metanól er eldsneyti sem notað er til íblöndunar í bensín, til framleiðslu á lífdísil og til framleiðslu á öðrum eldsneytistegundum og margvíslegum efnavörum. Brennisteinssýra er ein algengasta efnavara á heimsmarkaði, notuð við áburðarframleiðslu, við námavinnslu, í rafhlöður og til efnavinnslu.

Generic Image
Lofthreinsistöð við Hellisheiðarvirkjun