Nú geta ökumenn sótt sér snögga áfyllingu á rafbílinn á nýrri hraðhleðslustöð sem Orka náttúrunnar hefur sett upp í Borgarnesi í samstarfi við N1.
Stöðin, sem stendur við N1 Borgarnesi, er sjöunda stöðin af tíu sem ON opnar á Suður- og Vesturlandi og sú fyrsta sem stendur við þjóðveg númer eitt.
Rafbílaeigandi af hugsjón
Það var María Thors sem tók fyrstu hleðsluna í Borgarnesi nú í morgun. Hún er rafbílaeigandi af hugsjón og hefur farið sinna ferða á rafmagnsbíl frá 2007. María fagnar tilkomu hraðhleðslustöðvanna og segir það mikilvægt að geta fyllt á bílinn með skjótum hætti, sér í lagi á lengri leiðum. María valdi að ferðast um á rafbíl til að forðast útblástur og önnur umhverfisáhrif. Reksturinn segir hún talsvert ódýrari og orkukostnaðinn ekki hafa áhrif á ákvarðanir um bíltúra.
Aukin þjónusta við viðskiptavini
N1 leikur stórt hlutverk í samgöngukerfi landsins og með tilkomu nýju stöðvarinnar eykur N1 þjónustu við viðskiptavini sína og þróar hana með það fyrir augum að minnka áhrifin á umhverfið.