Fyrsta hraðhleðslustöðin í samband!

Kristbjörg Magnúsdóttir ljósmóðir, sem sinnir heimaþjónustu á rafbíl, var fyrst til að fá hleðslu á hraðhleðslustöð Orku náttúrunnar sem opnuð var í dag.

Stöðin er við höfuðstöðvar ON að Bæjarhálsi 1 og er sú fyrsta af tíu sem komið verður upp á næstu mánuðum víðsvegar um sunnan- og vestanvert landið. Átak Orku náttúrunnar, sem er í samstarfi við B&L og Nissan í Evrópu, er  mikilvægt skref í rafbílavæðingunni þar sem innviðir hennar eru styrktir.

Við staðsetningu hraðhleðslustöðvanna var þetta lagt til grundvallar:

  • Að þær myndu auka vegalengdina sem hægt er að ferðast á rafbílum frá þeim landshluta þar sem flestir eru, þ.e. höfuðborgarsvæðinu.
  • Að þær lægju vel við dreifikerfi rafmagns, en þær þurfa meira afl en heimilisrafmagnið.
  • Að bíleigandinn hefði eitthvað við að vera þann hálftíma sem tekur að hlaða.

Stöðvarnar verða því vítt og breitt um höfuðborgarsvæðið og í allt að 80 kílómetra fjarlægð frá miðborginni í allar áttir. Auk B&L og Nissan í Evrópu eru samstarfsaðilar Orku náttúrunnar í þessu verkefni Smáralind, Skeljungur, IKEA, Reitir, Olís og N1.

25.000 rafbílar í Noregi

Ole Henrik HannisdahlÍ tilefni af opnun hraðhleðslustöðvarinnar efndi Orka náttúrunnar til málþingsins Í samband við náttúruna. Norðmaðurinn Ole Henrik Hannisdahl hélt þar lykilerindi en hann er verkefnisstjóri Grønn Bil. Markmið þess verkefnis er að árið 2020 verði komnir 200 þúsund rafbílar á norskar götur. Nú eru þeir um 25.000 og standa Norðmenn öllum öðrum þjóðum framar á þessu sviði. Ole rakti árangur Norðmanna í rafbílavæðingunni og gerði m.a. samanburð á rekstri rafbíls og bensínbíls í Noregi, Svíþjóð og Danmörku.

Glærur -  Í samband við náttúruna - Ole Henrik

Tækifærin á Íslandi

Á málþinginu gerði Páll Erland, framkvæmdastjóri Orku náttúrunnar, grein fyrir tækifærum sem í rafbílavæðingunni felast og kynnti framlag fyrirtækisins til rafbílavæðingar. Páll ræddi einnig um mikilvægi þess að hraðhleðslustöðvarnar séu staðsettar þar sem rafbílaeigendur eru flestir og í nálægð við verslun og þjónustu.

Glærur -  Í samband við náttúruna - Páll Erland

Páll og Ole, ásamt Jóni Birni Skúlasyni, framkvæmdastjóra Íslenskrar nýorku, sátu í pallborðsumræðum eftir kynningar.

Generic Image
Frá vinstri: Ásdís Gíslason, markaðsstjóri ON, Kristbjörg Magnúsdóttir, og Páll Erland, framkvæmdastjóri ON