Fyrsta hraðhleðslustöðin á Suðurlandi opnuð

Ökumenn rafbíla geta nú hlaðið bílinn á nýrri hraðhleðslustöð sem Orka náttúrunnar (ON) hefur sett upp í samstarfi við Olís á Selfossi.

Þetta er áttunda stöðin af tíu sem ON mun halda úti á Suður- og Vesturlandi. Fyrir eru stöðvar við höfuðstöðvar ON að Bæjarhálsi 1, við bifreiðaumboð BL við Sævarhöfða, við Smáralind, við Skeljung á Miklubraut, á Fitjum í Reykjanesbæ, við IKEA í Garðabæ og í Borgarnesi.

Rafmagnsbíll er raunhæfur kostur

Guðmundur Ármann, framkvæmdastjóri Sólheima, sá um að opna stöðina á Selfossi. Hann hefur átt rafmagnsbíl í tæpt ár. Hraðhleðslustöðvarnar gera honum kleift að komast allra ferða sinna án nokkurra vandkvæða og telur hann þær lykilþátt í að hraða rafbílavæðingu á Íslandi. Með tilliti til umhverfissjónarmiða og fjárhagslegs sparnaðar séu rafbílar það eina rétta fyrir íslenskt framtíðarsamfélag.

Tíu nýir rafbílar á mánuði

Frá áramótum hafa tíu rafbílar bæst við bílaflota Íslendinga mánaðarlega. Fjölbreytt framboð rafbíla hefur aukist verulega síðustu mánuði. Hjá Norðmönnum er nú 21 rafbílategund á markaði. Þróunin er svipuð hér á landi. Rekstur rafbíla sparar peninga og minnkar útblástur. Á vef Orkuseturs er að finna reiknivél sem ber orkukostnað rafbíla saman við orkukostnað annarra bifreiða. Reiknivélin segir jafnframt til um hverju munar í útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Flestir rafbílaeigendur hlaða bíla sína heima hjá sér eða á vinnustað sínum. Til að stuðla að öruggum frágangi hleðslubúnaðar hefur Mannvirkjastofnun gefið út fræðslurit um hleðslu rafbíla og raflagnir. Hraðhleðsluverkefni ON er unnið í samstarfi við BL ehf. og Nissan Europe, sem lögðu hleðslustöðvarnar endurgjaldslaust til verkefnisins. Orka náttúrunnar sér um uppsetningu þeirra og rekstur.

Generic Image
Frá vinstri: Guðmundur Ármann, rafbílaeigandi, Sigurður K. Pálsson, markaðsstjóri Olís, Ásdís Gíslason, markaðsstjóri ON, Jón Halldórsson, forstjóri Olís og Brynjar Stefánsson, forstöðumaður Sölu- og markaðsmála ON.