Fyrsta hleðslan á Djúpavogi

Ólöf Rún Stefánsdóttir rafbílaeigandi hlóð bílinn sinn á Djúpavogi miðvikudaginn 13. desember þegar tuttugasta hlaða ON var tekin þar í notkun. Hlaðan er hvorttveggja búin hraðhleðslu fyrir rafbíla og hefðbundinni hleðslu. Fyrir jól mun ON bæta við hlöðum sunnan Vatnajökuls og á Egilsstöðum.

Þjónar mörgum tegundum rafbíla

Við Voginn er veitingastaður sem býður margháttaða þjónustu og við hann stendur hlaðan. Hún er búin þrenns konar tengjum til hraðhleðslu rafbíla og hefðbundinni hleðslu að auki. ON, sem hefur einsett sér að varða hringveginn hlöðum, mun á næstu dögum opna hlöður við Jökulsárlón og í Freysnesi sunnan Vatnajökuls og á Egilsstöðum.

Öflug uppbygging 2018

Smelltu hér til að sjá uppdrátt af uppbyggingu innviða fyrir umhverfisvænni samgöngur sem Orka náttúrunnar áformar á því sem eftir lifir af þessu og næsta ári. Hringvegurinn verður opnaður rafbílaeigendum og fjölfarnar leiðir utan hans. Í smáforritinu ON Hleðsla, sem hægt er að sækja í Play Store eða App Store sjá rafbílaeigendur hvar hlöður ON er að finna, stystu leið að þeim, hvaða tengjum þær eru búnar og hvort þær eru uppteknar eða hvort viðhald stendur yfir.

Djúpivogur
Ólöf Rún Stefánsdóttir, rafbílaeigandi