Fréttir
1. júní 2017

Viðmið í rekstri Andakílsárvirkjunar

Orka náttúrunnar rekur Andakílsársvirkjun samkvæmt áætlunum sem unnar voru í samstarfi við heimafólk í Andakíl og Skorradal. Þær miða að því að draga úr umhverfisáhrifum virkjanarekstursins og leita jafnvægis milli hagsmuna fólks við vatnið, veiðiréttarhafa í ánni og virkjunarrekstursins. Skýrslur um það hvernig hefur tekist til við að halda hæð Skorradalsvatns innan marka samkomulagsins við hagsmunaaðilana eru opinberar og öllum aðgengilegar á netinu.

Samkomulag við hagsmunaaðila 2005

OR tók við rekstri virkjunarinnar árið 2002 og síðan Orka náttúrunnar, dótturfélag OR í ársbyrjun 2014. Eftir að OR tók við rekstrinum var haft samráð við sveitarstjórnir og fleiri hagsmunaaðila í Skorradal og Andakíl um tilhögun hans. Niðurstaða þess var samkomulag sem kynnt var á almennum fundi í maí 2005 og er skjalfest í bréfi frá Orkuveitu Reykjavíkur til Umhverfisstofnunar árið 2006. Markmið þess er að;

  • draga úr sveiflum í vatnshæð Skorradalsvatns og halda henni innan skilgreindra marka,
  • tryggja lágmarksrennsli í Andakílsá,
  • stuðla að hagkvæmum rekstri Andakílsárvirkjunar.

Til að renna styrkari stoðum undir samkomulagið lét fyrirtækið hnit- og hæðarsetja lykilmannvirki virkjunarinnar og þá liggja fyrir rauntímaupplýsingar um vatnshæð í Skorradalsvatni og rennsli í Andakílsá.

Markviss skýrslugjöf

Orkuveita Reykjavíkur hefur gefið út árlega Umhverfisskýrslu frá aldamótum. Í þeim eru rakin veigamestu umhverfisáhrif reksturs OR og dótturfyrirtækja hvert ár. Í skýrslunni fyrir árið 2016 segir um Andakílsárvirkjun:

Árið 2016 náðist markmið um að halda rennsli neðan Andakílsárvirkjunar innan marka þannig að það sé ekki minna en 2 m3/s vegna lax og lífríkis í ánni. Utan nokkurra daga í október til desember náðist markmið um að halda vatnsborðssveiflum í Skorradalsvatni innan marka, sem eru 1,08 m í eðlilegum rekstri að vetrarlagi en 0,4 m á sumrin, þrátt fyrir mikla úrkomu haustið 2016.

Í skýrslunum er einnig birt myndrit sem sýnir vatnshæð Skorradalsvatns í samanburði við skilgreind mörk. Hér er myndin úr skýrslunni fyrir árið 2016:

Vatnshæð í Skorradalsvatni árið 2016

Áhrif umhverfisþátta

Raforkuvinnslan í Andakílsárvirkjun er ekki eini þátturinn sem hefur áhrif á vatnshæð í Skorradalsvatni og rennsli í Andakílsá. Úrkoma og leysingar hafa þar mikil áhrif hvernig sem stýringum er beitt. Stýringum við útrennslið úr Skorradalsvatni og við virkjunina hafa hinsvegar nýst til að draga úr sveiflum sem taldar hafa verið óæskilegar með tilliti til hagsmuna veiða í ánni og búsetu við vatnið. Í þurru ári hefur rennsli í ánni verið aukið og opnað hefur verið fyrir aukið rennsli úr vatninu í mikilli úrkomu- eða leysingatíð. Þá getur áhlæði vegna mikils vindstyrks valdið hæðarmun á vatnsyfirborði.

Samskipti við hagsmunaaðila

Starfsfólk Orku náttúrunnar hefur verið í samskiptum við heimafólk í Andakíl og Skorradal og hlustar eftir ábendingum þess um hvað betur megi fara í sambúð virkjunar, vatns og ár. Samkomulagið sem nú er orðið rúmlega áratugar gamalt hefur tekið breytingum. Þannig er í Umhverfisskýrslu vegna ársins 2015 gert grein fyrir samráði við heimafólk og þeirri niðurstöðu þess að breyta skilgreiningu á vetrartíma. Starfsfólk Orku náttúrunnar telur þessi samskipti nauðsynleg og mikilvæg og er fúst til að fara nánar yfir samkomulagið og þá hvort rétt sé að binda ákvæði í þau leyfi sem virkjunin starfar eftir.

Stafrænt kolefnisspor þessarar fréttar/greinar er áætlað 0,2 til 1,0g CO₂ ígilda á hverja heimsókn.