newsFréttir
23. apríl 2019

Vatnshæð Skorradalsvatns

Vegna fréttar Stöðvar 2 í gær, þar sem fjallað var um vatnshæð Skorradalsvatns, vill Orka náttúrunnar (ON) koma því á framfæri að fyrirtækið hefur ávallt haldið vatnshæð Skorradalsvatns innan þeirra marka sem Orkustofnun hefur sett um hæstu leyfilegu vatnshæð. ON hefur auk þess sett sér lægri mörk en opinberar kröfur segja til um vegna lífríkisins við vatnið og til að koma til móts við íbúa og sumarhúsaeigendur við Skorradalsvatn. Í fréttinni var Orka náttúrunnar gagnrýnd fyrir að tryggja ekki að vatnshæðin væri lægri og vísað þar til samkomulags ON við íbúa svæðisins.

Á vorin er unnið eftir samkomulagi sem gert var við heimafólk um að byrja fyrr að lækka í vatninu sem miðar að því að vera búin að ná sumarhæð þann 15. maí, en náttúran getur spilað þar stór hlutverk og erfitt getur verið að ráða við leysingar sem valda miklum vatnavöxtum, líkt og gerðist í vikunni og var tilefni fréttarinnar. Þá getur tímabundið hækkað lítillega aftur en vegna þess að brugðist var hratt við leysingunum þegar viðvaranir frá vöktunarkerfum ON bárust, þá tókst að halda vatninu innan þeirra marka sem fyrirtækið hefur sett sér.

ON hefur lagt sig fram um að starfa í sátt við samfélagið í Skorradal og mun gera það áfram og nú þegar hefur verið haft sambandi við fulltrúa þeirra til að fara yfir málið. Einnig verður skoðað hvort hægt sé að bregðast fyrr við og koma í veg fyrir sveiflur á vatnsborði vegna mikilla leysinga eins og þær sem urðu í vikunni.