newsFréttir
5. júní 2019

Þrír nýir stjórnendur hjá Orku náttúrunnar

Á síðustu dögum hafa þrjú verið ráðin í stjórnendateymi Orku náttúrunnar (ON) og munu þau taka þátt í að þróa eitt stærsta orkufyrirtæki landsins í takti við síbreytilegar þarfir og áskoranir. ON hefur verið leiðandi í uppbyggingu innviða fyrir rafbíla allt frá stofnun fyrirtækisins, árið 2014. „Við munum áfram verða í forystu í okkar nauðsynlegu og skynsamlegu orkuskiptum í samgöngum,“ segir Berglind Rán Ólafsdóttir framkvæmdastjóri ON. „Í þeim eykst hraðinn stöðugt og við ætlum að vera leiðandi á fleiri sviðum orkumála,“ bætir hún við. „Við höfum sett okkur metnaðarfull markmið um sporlausa vinnslu jarðhitans. Það kallar á ferska nálgun þar sem tvinnast saman betri nýting orkunnar sem við sækjum í jarðhitasvæðin og nýtingu á öðrum straumum sem koma upp með orkunni.“ Þar vísar Berglind meðal annars til þróunarverkefna við Hellisheiðarvirkjun þar sem hvert sprotafyrirtækið á fætur öðru hefur verið að halda sér völl til að nýta afurðir jarðhitavinnslunnar.

„Við bindum miklar vonir við nýja stjórnendur sem bætast nú við öflugt teymi okkar hjá ON og sem fyrr tökumst við einbeitt á við þessi verkefni,“ segir Berglind Rán.

Nýju stjórnendurnir

Hildigunnur Jónsdóttir – Tækniþróun

Hildigunnur gekk til liðs við ON fyrir rúmu ári sem verkefnisstjóri. Hún hafði þá sjö ára reynslu sem slíkur hjá danska orkufyrirtækinu Örsted þar sem hún vann að vindorku-verkefnum víða um heim. Hildigunnur er með M.Sc. gráðu í vélaverkfræði frá Columbia University í New York, diplómu í stjórnun (EBA) frá DTU í Danmörku og B.Sc. í vélaverkfræði frá Háskóla Íslands.

Guðrún Einarsdóttir – Einstaklingsmarkaðir

Guðrún réði sig til fjarskipta-fyrirtækisins Nova við stofnun þess og gegndi ýmsum stjórnunarstörfum á uppvaxtarárum þess, 2007-2013. Þá gerðist hún starfsmannastjóri hjá WOW en fór aftur til Nova 2014 þar sem hún stýrði verkefna- og vörustjórnun þar til fyrr á þessu ári. Guðrún er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands.

Kristján Már Atlason – Fyrirtækjamarkaðir

Kristján Már hefur áratuga reynslu af sölu- og markaðsmálum á fyrirtækjamarkaði. Hann starfaði hjá Olís þar sem hann var framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs félagsins frá árinu 2014. Þar áður starfaði Kristján hjá Samskipum í um 15 ár sem framkvæmdastjóri sölu- og markaðsmála, hvorttveggja í Reykjavík og Rotterdam. Kristján er með B.Sc. gráðu í hagfræði frá Háskóla Íslands og MBA gráðu frá sama skóla.

Hildigunnur Jónsdóttir

Kristján Már Atlason

Guðrún Einarsdóttir