Fréttir
29. júní 2019

Orka náttúrunnar vísar ásökunum á bug

Orku náttúrunnar hefur borist stefna frá lögmanni Áslaugar Thelmu Einarsdóttur, fyrrverandi forstöðumanns einstaklingsmarkaðar fyrirtækisins. Í henni er að finna tvær kröfur; annarsvegar að viðurkennt verði að Orka náttúrunnar hafi mismunað henni í launum á grundvelli kyns og varakrafa er að fyrirtækið sé bótaskylt vegna ólögmætrar uppsagnar hennar. Orka náttúrunnar hafnar báðum þessum kröfum og hefur falið lögmanni fyrirtækisins að taka til varna.

Orka náttúrunnar hefur verið í fremstu röð við að uppræta kynbundinn launamun og auka áhrif kvenna í stjórnun fyrirtækisins. ON er hluti samstæðu Orkuveitu Reykjavíkur og jafnlaunakerfi samstæðunnar hefur borið gullmerki PwC um árabil og nýtur viðurkenningar Jafnréttisstofu. Í stefnunni eru laun Áslaugar Thelmu borin saman við laun eins karlkyns stjórnanda í stöðu forstöðumanns hjá fyrirtækinu en alveg er sleppt samanburði við aðra forstöðumenn, karla jafnt sem konur. Mismunandi kjör þessara tveggja áttu sér málefnalegar ástæður, sem stefnandinn hefur fengið skriflegar útskýringar á.

Síðari hluta árs 2018 var gerð ítarleg úttekt af óháðum sérfræðingum á starfslokum Áslaugar Thelmu, ásamt því að Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gerði rannsókn á vinnustaðarmenningu innan Orkuveitu Reykjavíkur og dótturfélaga. Niðurstaða úttektarinnar var að uppsögnin var réttmæt. Finna má frétt um málið hér á vefnum og úttektarskýrslan er hér.

Orka náttúrunnar mun því taka til varna fyrir dómstólum enda voru greidd óskert laun á samningsbundum uppsagnarfresti og rétt staðið að samningi um ráðningarkjör í upphafi.

„Ég vonaði að þegar niðurstöður ítarlegrar óháðrar úttektar sérfræðinga lágu fyrir að fullnægjandi skýringar hefðu fengist um þetta starfsmannamál. Það er því afar leitt að standa enn í þessum sporum því þessi átök taka auðvitað á alla hlutaðeigandi, einnig starfsfólk Orku náttúrunnar. Fyrst málið er komið er komið í þennan farveg, vonast ég til þess að það fái skjótan framgang sem marki þá endalok þess,“ segir Berglind Rán Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Orku náttúrunnar.

Stafrænt kolefnisspor þessarar fréttar/greinar er áætlað 0,2 til 1,0g CO₂ ígilda á hverja heimsókn.