Fréttir
21. júlí 2020

Upplifun af bestu gerð – Náttúruhlaup ON 15. ágúst

Náttúruhlaup ON, Milli virkjana, verður haldið 15. ágúst nk. Svæðið á milli virkjana ON heitir Hengilssvæðið og þykir stórbrotin náttúruperla og hefur flest allt það sem prýðir íslenska náttúru þ.m.t.  áhugavert landslag, hvera- og gígasvæði, fjölbreytt gróðurfar, ár og stöðuvötn.

Hvert liggur leiðin?

Leiðin liggur yfir Hengilinn, frá Hellisheiðavirkjun í suðri, upp á sjálfan Hengilinn og yfir í Nesjavallarvirkjun í norðri. Leiðin er um 16 km á lengd og með 646 metra hækkun. Einnig verður í boði styttri leið, 8 km kringum fræðsluleiðina á Nesjavöllum. Báðar leiðirnar verða vel merktar. 16 km leiðin verður með tvær drykkjastöðvar og tímatöku. Ein af lykiláherslum ON er öryggi í fyrirrúmi. Hjálparsveit skáta Hveragerði mun sjá um öryggisgæslu meðan á hlaupinu stendur.

Keppendum verður boðið upp á súpu og brauð eftir hlaup og allir sem hlaupa fá gjafabréf á Jarðhitasýningu ON fyrir fjölskylduna.

Tímasetningar

Upphaf hlaupsins og mótstjórn verður í Nesjavallavirkjun.

Milli virkjana, 16 km leiðin:

  • 08:15 – Mæting í Nesjavallavirkjun
  • 08:30 – Rúta fer með þá sem ætla að hlaupa 16 km að Hellisheiðarvirkjun þar sem hlaupið hefst
  • 09:15 – Upphitun við Hellisheiðarvirkjun
  • 09:45 – Hlaupið ræst við Hellisheiðavirkjun

Fræðsluleið á Nesjavöllum, 8 km leiðin:

  • 09:30 – Mæting í Nesjavallavirkjun
  • 10:00 – Hlaupið ræst við Nesjavallavirkjun

Skráning fer fram á hlaup.is. Til þess að tryggja sér þátttöku er nauðsynlegt að skrá sig fyrir 14. ágúst. Skráningargjald er 5.000 kr. fyrir 16 km leiðina eða 4.000 kr. fyrir 8 km leiðina. Hægt verður að nálgast hlaupagögnin föstudaginn 14. ágúst hjá ON, Bæjarhálsi 1.

Nánar um svæðið

Hengill er athafnasvæði ON sem rekur jarðhitavirkjanirnar á Nesjavöllum og Hellisheiði. Hengilssvæðið er á meðal stærstu háhitasvæða á Íslandi og tengist þremur eldstöðvakerfum. Svæðið er kjörið til útivistar allan ársins hring og hefur fyrirtækið unnið markvisst að því að búa í haginn fyrir útivistarfólk með neti merktra leiða, upplýsingatöflum, gönguskála og útgáfu gönguleiðakorts allt frá árinu 1990. Í dag má finna 130 km af merktum leiðum í þessari náttúruparadís, þar sem náttúrufegurðin þykir án hliðstæðu.