Fréttir
28. júní 2017

Náið samstarf um úrbætur í Andakíl

Hér verða færðar inn upplýsingar um framvindu aðgerða eftir að set úr inntakslóni Andakílsárvirkjunar barst í ána.

Hreinsun í Andakílsá

Hafin er hreinsun á hluta þess sets sem barst í farveg Andakílsár úr inntakslóni Andakílsárvirkjunar. Grófu seti sem myndað hafði eyri neðan við stöðvarhúsið var mokað burt sem og úr nokkrum hyljum. Í framhaldinu var farið með dælur í hylji til að hreinsa fínna set sem þar hafði sest til. Sú vinna stendur enn. Þá verður vatn í ánni aukið tímabundið í algengt vætutíðarrennsli.

Markmið aðgerðanna er að draga úr áhrifum setsins og skapa þeim fiski sem gengur í ána á næstu dögum ákjósanlegri skilyrði í ánni. Samráð var haft við sérfræðinga og hagsmunaaðila um aðgerðirnar. Þeim lýkur nú í vikunni enda talið óráðlegt að vinna í farveginum eftir að fiskur er farinn að ganga í ána.

Í sumar stendur til að taka fisk úr ánni til klaks þar sem skynsamlegt sé að styðja við uppbyggingu stofnsins.

Á myndinni sést þar sem verið er að hreinsa með vélskóflu úr árfarveginum og sést uppmoksturinn fremst á myndinni:

Andakíll

21. júní:

Aðgerðaáætlun vegna Andakílsár

Orka náttúrunnar hefur sótt um leyfi til Borgarbyggðar og Skorradalshrepps til aðgerða til að draga úr áhrifum þess þegar mikið set barst í Andakílsá vegna mistaka við tæmingu inntakslóns Andakílsárvirkjunar. Sérfræðingar Náttúrufræðistofnunar Íslands telja að hvorki aurburðurinn né fyrirhugaðar aðgerðir hafi umtalsverð áhrif á fuglalíf á verndarsvæði við árósana.

Síðustu daga hefur verið unnið að því að afla formlegra leyfa allra viðkomandi landeigenda fyrir aðgerðunum og að fá mat náttúruvísindafólks á hugsanlegum áhrifum á fuglalíf við árósana. Nú liggur hvorttveggja fyrir auk niðurstaðna fjórðu mælinga sérfræðinga Hafrannsóknastofnunar á setinu í ánni.

Í stuttu máli gáfu niðurstöður Hafrannsóknastofnunar til kynna að áin hafi náð að ryðja sig að talsverðu leyti næst virkjuninni og þar sem straumur er mestur neðar í ánni. Enn sé þó verulegur aur í hyljum og mikilvægt sé að laxagangan sem von er á í ána um og upp úr mánaðamótum eigi að hrygningarstöðum að hverfa.

Niðurstaða Náttúrufræðistofnunar er að tæming inntakslónsins hafi ekki haft umtalsverð umhverfisáhrif á votlendi eða fuglalíf í friðlandinu í Andakíl og að fyrirhuguð hreinsun árinnar muni ekki gera það.

Verkefnishópur sem skipaður er sérfræðingum Hafrannsóknastofnunar, straumfræðingi frá Háskóla Íslands, fulltrúum veiðifélaga, Heilbrigðiseftirliti Vesturlands, fulltrúum frá Skorradalshreppi og Borgarbyggð ásamt fulltrúum frá ON, var settur á fót 26. maí. Á vettvangi hans hefur staðan verið metin með reglubundnum hætti og lagt á ráðin um aðgerðir.

Á fundi með hagsmunaaðilum í sveitunum ásamt sérfræðingum Hafrannsóknastofnunar og Háskóla Íslands, sem haldinn var á Hvanneyri 15. júní, voru eftirtaldar aðgerðir ræddar og ON hefur sótt um leyfi fyrir þeim:

  • Moka grófu seti úr árfarveginum næst Andakílsárvirkjun.
  • Hleypa auknu rennsli í ána í því skyni að rennsli hennar hreinsi farveginn enn frekar en þegar er orðið. Úrkoma ræður því hvort hækka þarf vatnsborð í Skorradalsvatni tímabundið að þeim mörkum sett voru í samstarfi við heimamenn árið 2005.
  • Prófa aðferðir til að fjarlægja set úr hyljum sem mikilvægir eru þeim löxum sem ganga í ána í sumar.
  • Beita þeirri aðferð eða aðferðum sem best koma út úr prófunum á fleiri veiðistaði í ánni.

Hér eftir sem hingað til mun ON hafa náið samráð við sérfræðinga og hagsmunaaðila um framvinduna. Aðgerðum í ánni mun verða lokið fyrir mánaðamót enda talið óráðlegt að hreyfa við farveginum eftir að fiskur er farinn að ganga í ána.

13. júní:

Verkefnishópur þingar

Á fundi verkefnishóps vegna aurburðarins í Andakílsá í dag var til umræðu mat vísindafólks á stöðunni eftir nýjustu mælingar á seti í ánni og áherslur veiðifélags árinnar um aðgerðir. Eins og fram kemur í minnisblaði Hafrannsóknastofnunar hefur áin náð að hreinsa sig nokkuð án aðgerða. Það á einkum við um ofanverða ána en ennþá er verulegt set á nokkrum veiðistöðum. Verkefnishópurinn er skipaður sérfræðingum Hafrannsóknastofnunar, straumfræðingi frá Háskóla Íslands, fulltrúum veiðifélaga, Heilbrigðiseftirliti Vesturlands, fulltrúum frá sveitarfélögunum Skorradalshreppi og Borgarbyggð, ásamt fulltrúum frá ON. Á fundinum í dag voru einnig fulltrúar frá Umhverfisstofnun. Niðurstaðan varð sú að vísindafólk Hafrannsóknastofnunar mun áfram fylgjast með framvindunni með mælingum á árfarveginum.

ON mun sækja um leyfi fyrir hreinsun á nokkrum stöðum í ánni. Aðgerðir voru ekki ákveðnar á fundinum en til þeirra verður gripið fáist til þeirra leyfi og að fengnum niðurstöðum næstu mælinga. Þær verða gerðar á morgun, miðvikudaginn 14. júní. Um og uppúr næstu mánaðamótum er von á stærstu laxagöngum sumarsins. Sérfræðingar Hafrannsóknastofnunar í veiðimálum telja ekki ráðlegt að ráðast í aðgerðir í ánni eftir þann tíma.

12. júní:

Mælingar á seti

Föstudaginn 9. júní barst ON minnisblað vísindafólks Hafrannsóknastofnunar um niðurstöður mælinga á seti í Andakílsá sem fram fóru 7. júní. Hér að neðan er samantektarkafli minnisblaðsins.

Í framhaldinu mun verkefnishópur meta stöðuna og fara yfir hvort og í hvaða aðgerðir skynsamlegt sé að ráðast. Hópurinn er skipaður sérfræðingum Hafrannsóknastofnunar, straumfræðingi frá Háskóla Íslands, fulltrúum veiðifélaga, Heilbrigðiseftirliti Vesturlands, fulltrúum frá sveitarfélögunum Skorradalshreppi og Borgarbyggð, ásamt fulltrúum frá ON.

Samantektin í minnisblaðinu

Í heildina á litið hefur áin greinilega verið að hreinsa sig síðan aurinn streymdi úr inntakslóni Andakílsárvirkjunar niður í farveg Andakílsár neðan virkjunar.

Efsti hluti farvegarins er að mestu orðinn hreinn ef undan eru skilin svæði með nýjum áreyrum sem eru mestmegnis möl (3-5 cm) en einnig fínna efni. Miklar breytingar eru þó á stuttum hluta árinnar þar sem möl þekur farveginn um 100 m neðan við virkjun. Sandur einnig sjáanlegur en ekki áberandi. Farvegurinn hulinn með nær jafnþykku setlagi, möl mest áberandi. Eftir því sem neðar dregur í farveginum verður mölin fíngerðari og um 700 m neðan við Andakílsárfossa er sandur ríkjandi. Þar er mjög mikið af honum og hann fyllir veiðistað nr. 4. Neðan við hann er annar veiðistaður þar sem áin hefur hreinsað að mestu leiti (snið 5) og er setið þar fínkornóttara en á ofar, fínsandur og silt. Um 1,5 km neðan við fossa er kornastærðin enn fínni, silt og leir og í miklu magni á hluta farvegarins en hluti farvegarins er orðinn hreinn (rofmegin í bugðunni).

Á þessum hluta farvegarins (efstu 1,5 km) eru víða kaflar þar sem gamli botninn er mest áberandi og þörungar og gróður farið að koma upp úr setinu. Þar sem hallinn er eilítið meiri (brot) er gamli botninn alveg hreinn.

8. júní 2017:

Bréf ON til Umhverfisstofnunar

Hér er bréf Orku náttúrunnar sem sent var Umhverfisstofnun síðdegis í gær. Þar er rakin atburðarásin sem leiddi til þess að mikið magn af seti úr inntakslóni Andakílsárvirkjunar fór niður í farveg árinnar upp úr miðjum síðasta mánuði.

Í lýsingunni kemur fram að starfsfólk ON gerði sér ekki grein fyrir því hversu umfangsmikill aurburðurinn var meðan botnrás inntaksstíflunnar var opin og að tæming lónsins var ekki nægilega vöktuð. Í þessu liggja mistök sem ON tekur ábyrgð á og fyrirtækið kappkostar nú að draga úr áhrifum þeirra á lífríki Andakílsár.

Verkefnishópur var settur á fót 29. maí sl. til að meta hvort og í hvaða aðgerðir sé skynsamlegast að ráðast til að takmarka áhrif aurburðarins á lífríki árinnar. Hópurinn er skipaður sérfræðingum Hafrannsóknastofnunar, straumfræðingi frá Háskóla Íslands, fulltrúum veiðifélaga, Heilbrigðiseftirliti Vesturlands, fulltrúum frá sveitarfélögunum Skorradalshreppi og Borgarbyggð, ásamt fulltrúum frá ON. Á vettvangi hópsins er farið yfir niðurstöður og ráð vísindafólks um hugsanlegar aðgerðir til að flýta því að setið farvegur árinnar hreinsist og samráð haft um aðgerðir.

6. júní 2017:

Vísindafólk rannsakar áfram í Andakíl

Vísindafólk sem Orka náttúrunnar hefur fengið til aðstoðar við að draga úr áhrifum þess þegar mikið af seti barst í Andakílsá telur að áin hafi þegar skolað nokkru af því úr farveginum. Ekki hefur verið ákveðið hvort gripið verður til aðgerða til að flýta þeirri þróun. Nú er áætlað að magnið af seti barst í árfarveginn sé miklu meira en upphaflega var talið.

Veiðimálasérfræðingar Hafrannsóknarstofnunar hafa á síðustu dögum gert tvennar mælingar á seti í farvegi árinnar. Mat þeirra er að nú þegar hafi nokkru skolað úr honum. Á morgun verður þriðja mælingin gerð og í framhaldi af því metið hvort skynsamlegt sé að grípa til aðgerða til að herða á því að setið berist niður ána. Jafnframt verður hugað að ástandinu í neðri hluta árinnar, neðan veiðisvæðisins, hvort setið safnist þar upp eða berist til sjávar. Hagsmunir á því svæði eru af öðrum toga; þar eru ekki veiðistaðir en meðal annars friðland fugla. Auk náttúrufræðinga hefur sérfræðingur í straumfræði verið ON til ráðgjafar í því augnamiði að draga úr umhverfisáhrifum þess að setið barst í ána.

Hafinn er undirbúningur að því að taka fisk úr ánni í sumar til klaks þar sem ljóst þykir að sá árgangur seiða sem var í ánni þegar aurinn barst í hana hafi orðið fyrir verulegum skakkaföllum. Því þurfi að huga að því að styðja við uppbyggingu stofnsins.

Á fundi starfsfólks Orku náttúrunnar með vísindafólki og fulltrúum eftirlitsstofnana í dag var lagt fram nýtt mat á magni sets sem barst niður í ána. Nýja matið er byggt á mælingum Veðurstofunnar á dýpt inntakslónsins frá 2004 og svo loftmyndum sem teknar voru meðan lónið var tómt nú á dögunum. Ráðgjafar ON, sem lögðu upphaflega mat á umfangið, hafa í ljósi þessara gagna endurskoðað mat sitt og telja það nú geta hafa verið þrefalt til fimmfalt miðað við það sem upphaflega var áætlað.

Upphafleg frétt 30.5.2017:

Eftir fundi með veiðimálasérfræðingum og heimafólki í Andakíl hefur verið settur á stofn verkefnishópur til að draga úr umhverfisáhrifum þess að set barst í Andakílsá. Á næstu dögum verða þróaðar leiðir til að skola eða fjarlægja set úr farvegi árinnar.

Sameiginlegur verkefnishópur

Starfsfólk ON fundaði með sérfræðingum Hafrannsóknastofnunar föstudaginn 26. maí til að fara yfir mat þeirra á áhrifum setsins sem barst niður í Andakílsá og ráðleggingar til úrbóta. Í framhaldinu var fundað með veiðiréttareigendum og fulltrúum sveitarstjórna og leyfisveitenda mánudaginn 29. maí. Þá hefur ON fengið sérfræðing í straumfræði frá Háskóla Íslands til að vera til ráðgjafar við þróun aðferða til að losa eða hreinsa set úr farvegi Andakílsár.

Ákveðið var að setja á fót verkefnishóp til að stýra aðgerðunum framundan. Hann skipa, auk fulltrúa Orku náttúrunnar, fulltrúar tveggja félaga veiðiréttarhafa í ánni, sveitarfélaganna tveggja sem hagsmuna eiga að gæta og vísindafólk Hafrannsóknastofnunar í veiðimálum og Háskóla Íslands í straumfræði. Ákveðið var að setja hópinn á fót til að tryggja aðkomu lykilaðila að aðgerðum og stytta boðleiðir.

Aðferðir þróaðar á næstu dögum

Í samræmi við ráð veiðimálasérfræðinga og að höfðu samráði við heimafólk og leyfisveitendur verða nú á næstu dögum prófaðar aðferðir til að ná seti úr hyljum. Þegar skynsamlegustu leiðir hafa verið verið fundnar verður gerð aðgerðaáætlun. Markmið áætlunarinnar er að sá lax sem gengur í ána undir lok júnímánaðar hafi að hrygningarstöðum að hverfa í ánni. Þá er hafinn undirbúningur að því að taka fisk úr ánni í sumar til klaks þar sem ljóst þykir að sá árgangur seiða sem var í ánni þegar aurinn barst í hana hafi orðið fyrir verulegum skakkaföllum. Því þurfi að huga að því að styðja við uppbyggingu stofnsins.

Stafrænt kolefnisspor þessarar fréttar/greinar er áætlað 0,2 til 1,0g CO₂ ígilda á hverja heimsókn.