newsFréttir
23. apríl 2019

Mikilvægt skref í tengingu Vestfjarða

Það var fjör í Búðardal þegar nýjasta hlaða ON var opnuð núna um páskahelgina. Umferðin var fremur þung vestur enda margir á leið á tónlistarhátíðina Aldrei fór ég suður. Þrátt fyrir ausandi rigningu var Jón Markússon, rafvirki og rafbílaeigandi í Búðardal mættur til að vígja hlöðuna og ganga úr skugga um að allt virkaði eins og það á að gera.

Ég er alsæll með þetta framtak Orku náttúrunnar en það skiptir gríðarlega miklu máli að sinna Vesturlandinu“, segir Jón. „Ég ákvað að fá mér rafbíl þar sem ég er nú rafvirki sjálfur og svo var ég bara búinn að styrkja olíufélögin alveg nóg. Það er ekkert vandamál að eiga rafbíl þegar maður býr á landsbyggðinni, maður tekur bara tillit til drægni bílsins og hagar sér eftir því“, bætir Jón við.

Er ég hleð heim í Búðardal…

ON hlaðan er við Kjörbúðina og blasir við þegar komið er inn í bæinn. Hlaðan er búin tveimur hraðhleðslutengjum auk Type-2 hleðslutengis og ætti því að svara öllum þörfum rafbíla sem eru í notkun á Íslandi.

„Við, eins og aðrir, tökum eftir því að hugur fólks leitar í æ ríkari mæli í umhverfisvænni samgöngukost, rafbíla, tengiltivinn- og hybridbíla og því er ekkert nema sjálfsagt að veita þessa þjónustu hér hjá Kjörbúðinni í Búðardal“, segir Ingvar K. Bæringsson, verslunarstjóri Kjörbúðarinnar.

Mikil umferð ferðalanga er í gegnum Búðardal og oftar en ekki er þar fyrsta stopp þeirra sem eru á leið á Vestfirði. Má því gera ráð fyrir að ON hlaðan verði mikið notuð, bæði af íbúum sem og þeim sem eiga leið hjá. Hlaðan í Búðardal er einnig mikilvægt skref í átt að því að tengja Vestfirði við hringveginn fyrir rafbílaeigendur, en hann er varðaður hlöðum ON. Auk tengingar við Vestfirði er horft til ferðamannastaða þegar kemur að uppbyggingu innviða á Vesturlandi fyrir rafbílaeigendur en í bígerð er að opna hlöður í Reykholti og í Húsafelli.

Mikil aukning hefur verið í sölu rafbíla hér á landi og það er alveg ljóst að við erum að svara kallinu um orkuskipti í samgöngum. Drægni nýrra rafbíla fer ört vaxandi og því má búast við að fólk ferðist á rafbílum um landið í ríkari mæli“, segir Berglind Rán Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri ON.