Fréttir
26. mars 2018

Hringvegurinn opinn rafbílaeigendum

Hátíðarstemning var í kalsaveðri við Mývatn í dag þegar ON tók þar í notkun hlöðu með hraðhleðslu fyrir rafbíla. Með þessu hefur ON varðað allan hringveginn hlöðum. Friðrik Jakobsson sem starfar við ferðaþjónustu í Mývatnssveit fékk sér fyrstu hleðsluna í dag að viðstöddum Þorsteini Gunnarssyni sveitarstjóra og Bjarna Má Júlíussyni, framkvæmdastjóra ON.

„Ég vona svo sannarlega að þessi tímamót hvetji ekki bara okkur landsmenn til að skipta yfir á rafmagn í samgöngum, heldur ekki síður ferðafólk sem hingað kemur,“ segir Bjarni Már Júlíusson, framkvæmdastjóri ON.

Stendur við Fosshótel

Hlaðan stendur við Fosshótel í Reykjahlíð og auk hraðhleðslunnar er þar líka hefðbundin hleðsla (AC). Á milli Mývatns og Egilsstaða eru 165 kílómetrar og þar á milli er hlaða ON á Skjöldólfsstöðum í Jökuldal. Hún er nú búin AC hleðslu sem verður uppfærð fyrir sumarið.

Vorið 2017 – fyrir innan við ári – opnaði ON leiðina milli Akureyrar og Reykjavíkur og hefur ekki látið deigan síga síðan. Hlöður ON eru nú 31 talsins og á næstu vikum og mánuðum bætast um 20 við, á höfuðborgarsvæðinu og í öllum öðrum landshlutum.

Í „appi“ ON, ON Hleðsla er hægt að sjá hvar allar hlöður ON eru, hvaða tenglum þær eru búnar og hvort þær eru til reiðu. Í nýlegri uppfærslu á appinu er líka hægt að sjá hlöður annarra en ON og viðskiptavinir ON geta fengið yfirlit yfir orkukaup sín í hlöðum fyrirtækisins.

Mikil tækifæri fyrir ferðaþjónustuna

Mikil fjölgun ferðamanna síðustu ár hefur gert það að verkum að kolefnisspor samgangna á landi hefur vaxið, þvert á markmið um minnkað kolefnisspor. Margt ferðafólksins leigir sér bíl og ferðast á eigin vegum. Talið er að ríflega 20 þúsund bílaleigubílar séu í landinu og kolefnisspor þeirra sé meira en 100 þúsund tonn kolefnisígilda á ári. Til samanburðar eru rafbílar hér á landi um fimm þúsund eftir að hafa fjölgað um nálægt þrjú þúsund á árinu 2017.

Léttum kolefnissporið

„Þarna eru mikil sóknarfæri fyrir þessa öflugu atvinnugrein,“ að mati Bjarna Más. „Við hjá ON erum hvergi nærri hætt okkar uppbyggingu á innviðum fyrir orkuskipti í samgöngum. Nú fögnum við mikilvægum áfanga. Nýlegar kannanir sýna að Íslendingar eru tilbúnari en flestar aðrar þjóðir til að skipta yfir í rafbíl og til í að gera það fyrr. Við munum halda áfram að gera okkar besta til að auðvelda þeim slíka ákvörðun.“

Stafrænt kolefnisspor þessarar fréttar/greinar er áætlað 0,2 til 1,0g CO₂ ígilda á hverja heimsókn.