Fréttir
18. júní 2018

Góð niðurstaða sjálfbærnimats á rekstri Hellisheiðarvirkjunar

„Hellisheiðarvirkjun hefur lítil neikvæð áhrif á umhverfi og samfélag og mikilvæg jákvæð félagsleg og hagræn áhrif, einkum með vinnslu á hreinni og ódýrri raforku og heitu vatni til að mæta þörfinni á Höfuðborgarsvæðinu.“ Þetta er ein meginniðurstaða úttektar á sjálfbærni í núverandi rekstri Hellisheiðarvirkjunar sem gerð var í upphafi ársins. Þó leiðir matið í ljós frávik frá fyrirmyndarframmistöðu sem Orka náttúrunnar er að ráða bót á.

Fyrsta sjálfbærnimat á jarðhitavirkjun í rekstri

Úttektin er byggð á matslykli fyrir jarðhitavirkjanir sem er í þróun á vegum íslenskra stjórnvalda og jarðhitafyrirtækjanna í landinu. Lykillinn – Geothermal Sustainability Assessment Protocol (GSAP) – er byggður á samskonar alþjóðlegum lykli fyrir vatnsaflsvirkjanir. Hellisheiðarvirkjun er fyrsta virkjunin í rekstri sem honum er beitt á. Áður var hann notaður til að meta sjálfbærni undirbúningsstigs Þeistareykjavirkjunar.

Starfsemi Hellisheiðarvirkjunar var metin út frá 14 þáttum sem spanna svið umhverfis, samfélags og efnahags, sem eru stoðirnar þrjár undir sjálfbærum rekstri. Aðalúttektarmaður var dr. Joerg Hartmann. Hellisheiðarvirkjun er þriðja virkjunin sem hann tekur út hér á landi með tilliti til markmiða um sjálfbæra þróun. Rætt var við fjölda starfsfólks Orku náttúrunnar og Orkuveitusamstæðunnar auk 31 utanaðkomandi aðila. Auk þess sendu almannasamtök fulltrúa til að fylgjast með úttektarferlinu meðan á því stóð.

Skýrsla um sjálfbærni í rekstri Hellisheiðarvirkjunar

Ekkert frávik frá góðum starfsvenjum

Niðurstaða úttektarinnar er að ekkert veigamikið frávik fannst frá góðum starfsvenjum (basic good practice). Frávik frá fyrirmyndarframmistöðu (proven best practice) voru tíu samtals. Úttektin leiddi í ljós tvö frávik hvað varðar auðlindastýringu, sem er viðvarandi verkefni við virkjunina, Í skýrslunni kemur fram að fyrirtækið hefur mætt áskorunum í auðlindastýringu vegna þeirra ákvarðana sem teknar voru um hraða uppbyggingu virkjunarinnar á sínum tíma. Skilningur á jarðhitaauðlindinni hefur aukist til muna og virk auðlindastýring er viðhöfð til að vinna á móti þeim áskorunum. Úttektin leiddi einnig í ljós tvö frávik hvað varðar áhrif á nærsamfélög. Í úttektarskýrslunni er hvatt til aukinna samskipta við íbúa í grennd við virkjunina, einkum við íbúa í Hveragerði. Bærinn er á áhrifasvæði virkjunarinnar án þess að hafa stjórnskipulega aðkomu að ýmsum málefnum Hellisheiðarvirkjunar sem íbúa hans getur varðað.

Hæstu einkunn fyrir fyrirmyndarframmistöðu fær Hellisheiðarvirkjun í sex af þáttunum 14. Það er fyrir

  • stjórnun umhverfis- og samfélagsþátta
  • áreiðanleika búnaðar og skilvirkni í rekstri
  • ábata af verkefninu
  • áhrif á líffræðilega fjölbreytni
  • skjálftavirkni og landsig
  • loft- og vatnsgæði.

Bjarni Már Júlíusson, framkvæmdastjóri ON

„Orka náttúrunnar vill starfa með heiðarlegum og gegnsæjum hætti í sátt við samfélag og umhverfi og skila eigendum fyrirtækisins ábata. Það er okkur því mikilvægt að fá þetta óháða mat á því hvernig við stöndum okkur við það. Ég er ánægður með niðurstöðuna. Við höfum glímt við margar áskoranir í rekstri Hellisheiðarvirkjunar og úttektin sýnir að okkur hefur orðið verulega ágengt. Hún sýnir líka að við getum bætt okkur og það er mikilvægt að fá þetta glögga gests auga til að skerpa sýn okkar á hvernig við getum rekið þessa stærstu jarðhitavirkjun landsins í sem bestri sátt við umhverfi okkar og samfélag.“

Stafrænt kolefnisspor þessarar fréttar/greinar er áætlað 0,2 til 1,0g CO₂ ígilda á hverja heimsókn.