Fréttir
31. janúar 2023

Frá alþjóðlegu lyfjafyrirtæki til Orku náttúrunnar

Orka náttúrunnar hefur ráðið Árna Hrannar Haraldsson í starf framkvæmdastjóra fyrirtækisins og mun hann hefja störf þann 1.maí næstkomandi. Árni Hrannar býr yfir mikilli reynslu sem stjórnandi í íslenskum og alþjóðlegum fyrirtækjum síðustu tuttugu ár.

Árni hefur búið í Sviss frá árinu 2011 og síðustu ár starfað sem framkvæmdastjóri og borið ábyrgð á aðfangakeðju MSPharma sem er alþjóðlegt lyfjafyrirtæki með starfsemi víða um heim. Þá hefur Árni Hrannar einnig gegnt lykilhlutverkum hjá Xantis Pharma í Sviss, Actavis og 66° Norður.

„Árni Hrannar hefur mikla reynslu sem yfirmaður í markaðsleiðandi fyrirtækjum bæði innanlands og á alþjóðamarkaði. Hann hefur haft fjölþætt mannaforráð og borið ábyrgð á umfangsmiklum rekstri. t.d. innkaupum, framleiðslu og stýringu á flóknum aðfangakeðjum. Við trúum að reynsla Árna Hrannars muni reynast Orku náttúrunnar vel auk þess sem metnaður hans og sýn fara vel saman við þá vegferð sem Orka náttúrunnar er á“ segir Helga Jónsdóttir stjórnarformaður ON.

Árni Hrannar er fimtugur, giftur með þrjú börn og alinn upp í Hafnarfirði þar sem hann gekk í grunnskóla og framhaldsskóla. Hann lauk B.SC. námi í efnafræði frá Háskóla Íslands árið 1997 og M.SC. gráðu í rekstrarverkfræði frá Danmarks Tekniske Universitet (DTU) árið 2000.

„Ég hlakka til að leiða öfluga starfsemi Orku náttúrunnar og halda áfram uppbyggingu fyrirtækisins á Íslandi. Að vinna í góðum hópi fólks að ábyrgri nýtingu auðlinda Íslands samfélaginu til góða er að mínu mati mikil forréttindi,“ segir Árni Hrannar Haraldsson nýráðinn framkvæmdastjóri ON.

Orka náttúrunnar framleiðir og selur rafmagn á ábyrgan og umhverfisvænan hátt með það markmið að gæta hagsmuna auðlinda landsins og viðskiptavina með sjálfbærni að leiðarljósi. Við styðjum við nýsköpun, ábyrga nýtingu auðlindarinnar og flýtum fyrir orkuskiptum með minna vistspori, samfélaginu öllu til heilla.

Stafrænt kolefnisspor þessarar fréttar/greinar er áætlað 0,2 til 1,0g CO₂ ígilda á hverja heimsókn.