Fréttir
4. mars 2021

Fjórði hver bíll var 100% rafbíll 2020

Á síðasta ári var fjórði hver nýskráður fólksbíll hreinn rafbíll. Árið var algjört metár en árið áður var hlutdeild hreinna rafbíla aðeins tæp 8%. Aðeins Noregur skráir hlutfallslega fleiri nýja rafbíla í heiminum öllum, en Ísland.

 Framboð nýrra rafbíla mun aukast mikið á árinu

Framboð hreinna rafbíla hefur aukist jafnt og þétt og var í upphafi árs hægt að velja vel yfir 20 ólíkar gerðir rafbíla frá 15 framleiðendum. Fjölmargar nýjar og spennandi tegundir frá þekktum bílaframleiðendum munu koma inn á markaðinn á þessu ári sem ætti að hafa enn frekari áhrif á sölutölur rafbíla. Bílgreinasambandið gerir ráð fyrir að alls seljist 11.000 fólksbílar á árinu 2021. Miðað við að hlutdeild hreinna rafbíla haldist óbreytt ættu að bætast um 2.750 rafbílar við bílaflotann á árinu.

„Við erum gríðarlega spennt að halda uppbyggingunni áfram til að mæta þörfum rafbílaeiganda og þessum ört stækkandi markaði. Fyrirhugað er að setja niður enn fleiri 150kW stöðvar þannig að fólk nái að ferðast um land allt áhyggjulaust“, segir Hafrún Þorvaldsdóttir, verkefnastjóri hleðslunets ON.

Áframhaldandi uppbygging á hleðsluneti ON

ON hefur lagt áherslu á uppbyggingu hleðslunets fyrir rafbíla frá árinu 2014. Í upphafi var  byggt upp þétt net hraðhleðslustöðva hringinn í kringum landið. Nú þegar drægni rafbíla hefur aukist mikið hefur fyrirtækið horft á að styrkja hleðslunet sitt með nýjustu kynslóð hraðhleðslustöðva sem hlaðið geta fleiri bíla í einu með enn meira afli. Þannig hafa hraðhleðslur ON verið settar niður þar sem reynslan hefur sýnt að þörfin er mest að styrkja hleðslunetið.

„Nýju 150kW hraðhleðslurnar eru bylting fyrir nýjustu rafbílana á markaði, við erum að þrefalda hleðsluhraðann frá fyrstu 50kW hraðhleðslunum sem við settum upp. Við erum þegar búin að setja upp 3 staðsetningar í Rvk, við Bæjarháls, Suðurfell og Miklabraut og einnig úti á landi í Víðigerði, Varmahlíð og Akureyri“ segir Hafrún.

ON vinnur jafnframt að metnaðarfullu verkefni með Reykjavík og Garðabæ þar sem settar verða hátt á annað hundruð hleðslur á staði í eigu sveitarfélaganna með það að markmiði að fleiri hafi aðgang að hleðslu í grennd við heimili sitt.

 

Stafrænt kolefnisspor þessarar fréttar/greinar er áætlað 0,2 til 1,0g CO₂ ígilda á hverja heimsókn.