newsFréttir
12. júní 2019

Bilaður rafall í Hellisheiðarvirkjun

Við reglubundið viðhald á einni af sjö aflvélum Hellisheiðarvirkjunar nú á dögunum kom í ljós bilun í rafal við vélina. Miðað við þær upplýsingar sem nú liggja fyrir tekur viðgerð um tvo mánuði.

Gufuaflsvirkjanirnar á Hengilssvæðinu – á Nesjavöllum og Hellisheiði – hafa verið reknar í tæpa tvo áratugi án þess að svona skemmda hafi orðið vart. Allar vélarnar – sjö á Hellisheiði og fjórar á Nesjavöllum – hljóta reglubundnar skoðanir og viðhald.

Í samstarfi við sérfræðinga og aðra hagaðila vinnur starfsfólk Orku náttúrunnar nú að því að meta umfang vandans, finna ástæður hans og gera við.

Hellisheiðarvirkjun er stærsta jarðgufuvirkjun landsins. Í henni eru sex 45 megavatta aflvélar sem nýta háþrýsta jarðgufu auk 33 megavatta lágþrýstivélar. Þá er unnið heitt vatn í virkjuninni fyrir hitaveituna á höfuðborgarsvæðinu. Raforkan sem unnin er í vélarsamstæðunni, sem nú er verið að gera við, svarar til um eins tíunda hluta af raforkuvinnslu ON. Áhrif á heitavatnsvinnslu í Hellisheiðarvirkjun eru engin.