Fjórar nýjar hlöður, sala hefst 1. febrúar

Á næstu dögum opnar Orka náttúrunnar (ON) fjórar nýjar hlöður fyrir rafbíla við hringveginn. Ákveðið hefur verið að verðið fyrir hraðhleðslu verði 39 krónur á mínútuna. Það þýðir að algeng not af hraðhleðslu kostar fjögur til sex hundruð krónur skiptið. Salan hefst 1. febrúar 2018.

Samstarf um sölukerfi

ON hefur unnið að þróunarverkefni fyrir söluna í samstarfi við ýmsa aðila, þar á meðal íslenska nýsköpunarfyrirtækið Faradice. Í þróuninni felst hönnun, uppsetning og prófanir á sölubúnaðinum. Hann byggist á notkun rafrænna lykla sem tengdir verða með hugbúnaði við greiðslukort handhafa lykilsins, ekki ósvipað greiðslulyklum eldsneytisfélaga. Lokaprófanir standa nú yfir og verður búnaðurinn tekinn í notkun þegar sala hefst í hlöðunum. Á næstu vikum verður nánari tilhögun þessa kynnt fyrir rafbílaeigendum. Verðið fyrir þjónustuna ræðst að mestu leyti af kostnaði við uppsetningu og rekstur hlaðanna en rafmagnsnotkunin sjálf vegur minna. ON hefur einsett sér að varða hringveginn og helstu leiðir utan hans. Viðbúið er að nýting á sumum stöðum verði talsvert meiri en öðrum, en ON byggir verðið á þjónustunni á hagkvæmni verkefnisins í heild. Þjónustan verður á sama verði um allt land og hefur ON notið styrkja frá Orkusjóði til hluta uppbyggingarinnar, einkum í hinum dreifðu byggðum.

Rafbílum fjölgar hratt

Fjöldi rafbíla náði ekki einu hundraði þegar ON hóf uppbyggingu öflugra innviða fyrir orkuskipti í samgöngum, árið 2014. Nú er fjöldi hreinna rafbíla og tengiltvinnbíla að nálgast fimm þúsund. Með þessu hefur notkun á hlöðum aukist mikið og dæmi um kvartanir yfir því að bílar standi óþarflega lengi tengdir við hraðhleðslurnar. Með því að miða verð þjónustunnar, þegar sala hefst 1. febrúar n.k., við þann tíma sem hver bíll er tengdur fæst betri nýting á innviðunum, enda dregur úr líkum á að bílar séu lengur tengdir hraðhleðslunni en þörf er á.

Hlöðum ON fjölgar líka hratt

Á þessu ári hefur ON opnað leiðina milli Akureyrar og Reykjavíkur og varðað Suðurlandið hlöðum allt austur á Kirkjubæjarklaustur. Á næstu dögum mun þessi þjónusta við rafbílaeigendur einnig bjóðast í Freysnesi í grennd við Skaftafell, við Jökulsárlón, á Djúpavogi og við N1 á Egilsstöðum. Á næstu vikum bætast svo við hlöður á Stöðvarfirði, við Minni-Borg í Grímsnesi, við Mývatn og við þjónustustöðvar N1 hvorttveggja við Lækjargötu í Hafnarfirði og í Mosfellsbæ. Hlöður ON verða orðnar fleiri en 50 í árslok 2018. ON á í samstarfi við fjölda aðila um uppbygginguna. Einna mikilvægastir eru þeir sem leggja til aðstöðu fyrir hlöðurnar og hefur N1 leikið þar stórt hlutverk.

Appið uppfært

Þá verður tilbúin á næstunni ný útgáfa af smáforritinu ON Hleðsla. Appið sýnir hvar hlöður ON er að finna, stystu leið að þeim, hvaða tengjum þær eru búnar og hvort þær eru uppteknar eða hvort viðhald stendur yfir. Endurbæturnar á appinu fela meðal annars í sér að notendur geta stillt það á sína tegund af tengi þannig að upplýsingar um hvort hraðhleðsla er til reiðu á hverjum stað verða sniðnar eftir þeirri stillingu. Hraðhleðslur ON eru allar með tvær til þrjár gerðir af hleðslutengjum.

Hleðslustöðvar kort - web.jpg