Fimmta hraðhleðslustöðin opnuð við Shell á Miklubraut

Eigendur rafbíla geta nú sótt sér áfyllingu á bíla sína nærri hlaðhleðslustöð Orku náttúrunnar (ON) við Miklubraut.

Stöðin er opnuð í samstarfi við Skeljung. Rafbílaeigendur geta nýtt tímann vel á meðan á áfyllingu stendur því ný 10-11 verslun er á staðnum en líka er hægt að tengjast þráðlausu neti ókeypis og sinna sínum rafrænu erindum á meðan fyllt er á bílinn. Þetta verkefni ON er tilraunaverkefni til tveggja ára.

Þetta er fimmta stöðin af tíu sem ON opnar á Suður- og Vesturlandi. Fyrir eru stöðvar við höfuðstöðvar ON að Bæjarhálsi 1, við bifreiðaumboð BL við Sævarhöfða, við Smáralind og ein stöð staðsett á Fitjum í Reykjanesbæ.

Starfsmaður mánaðarins opnar stöðina

Starfsmaður mánaðarins hjá Skeljungi, Guðmundur Benjamín Jóhannesson, starfsmaður á Shell-stöðinni Birkimel opnaði stöðina en starfsmaður mánaðarins hverju sinni fær afnot af rafbíl fyrirtækisins í einn mánuð. Þetta er annars vegar hugsað sem umbun fyrir góða frammistöðu í starfi og hins vegar sem kynning á grænum valkostum til samgangna á landi. Valgeir Baldursson, nýráðinn forstjóri Skeljungs, segir að fyrirtækinu sé sönn ánægja að taka þátt í því að auka aðgengi að grænni orku.

 

Margt jákvætt við rafbílavæðingu

ON leggur mikla áherslu á að styðja við rafbílavæðingu á Íslandi en sala á rafbílum hefur aukist jafnt og þétt á síðustu árum. Raforka er ódýrari hér á landi en víðast annarsstaðar og enginn mengandi útblástur kemur frá þeim bílum sem ganga alfarið fyrir rafmagni. Sífellt fleiri bílaframleiðendur leggja áherslu á að bjóða rafbíla og sífellt fleiri aðilar leggjast á þessa sveif. Þannig hefur Mannvirkjastofnun gefið út fræðslurit um hleðslu rafbíla og raflagnir.

 

Generic Image
Valgeir Baldursson forstjóri Skeljungs, Guðmundur Benjamín Jóhannesson starfsmaður mánaðarins og Ásdís Gíslason markaðsstjóri ON við opnun á nýrri hraðhleðslustöð við Miklubraut.