ON fær umhverfisverðlaun atvinnulífsins

Orka náttúrunnar hlaut í dag Umhverfisverðlaun atvinnulífsins fyrir framtak ársins, uppbyggingu nets hraðhleðslustöðva fyrir rafbíla.

Það var Páll Erland, framkvæmdastjóri ON, sem tók við verðlaununum úr hendi Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, við athöfn sem var hluti Umhverfisdags atvinnulífsins 2015. Í ávarpi Páls þegar hann tók við viðurkenningunni sagði hann að þessi verðlaun yrðu fyrirtækinu og starfsfólki þess hvatning til að leggja sig enn betur fram um að treysta innviði þeirrar rafvæðingar samgangna sem nú er hafin.

Rökstuðningur dómnefndar

Dómnefnd verðlaunanna skipuðu þau Helga Jóhanna Bjarnadóttir, sviðsstjóri umhverfismála hjá verkfræðistofunni Eflu, formaður, Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík og Þorsteinn Ingi Sigfússon, forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands. Rökstuðningur dómnefndar fyrir valinu á ON var þessi:

„Fyrirtækið sem hlýtur þessa viðurkenningu hefur byggt upp aðstöðu sem gagnast víða og nýtist mörgum. Það hefur tekið þeirri áskorun sem felst í því að ein besta leiðin til að draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda er að rafvæða samgöngurnar. Eitt af því sem stendur í vegi rafvæðingunni er skortur á innviðum. Fyrirtækið bendir á að þrátt fyrir að eldsneytisnotkun bifreiða hafi dregist saman þá hafi hlutfall eldsneytisnotkunar bifreiða af heildareldsneytisnotkun ekki minnkað. Nýleg þróun rafbíla hafi gert þá að raunhæfum kosti fyrir almenning. Aðgerðir stjórnvalda styðji einnig við þá þróun. Talið er að það sem fólk setji helst fyrir sig sé vegalengdin sem unnt er að komast á einni hleðslu.

Nú eru um 500 rafbílar á landinu en rafbílar nýta orkuna betur en hefðbundnir bílar. Drifbúnaðurinn er frekar einfaldur, varmatap vegna bruna er ekkert og hemlunarorkan gjarnan nýtt til að endurhlaða rafhlöðurnar.

Fyrirtækið sem hlýtur viðurkenningu fyrir umhverfisframtak ársins hefur að undanförnu byggt upp net hraðhleðslustöðva á Suðvesturlandi frá Borgarnesi til Selfoss og hefur uppi áform um frekari uppbyggingu slíkra stöðva.“

Það var Steinull hf. á Sauðárkróki sem hlaut útnefninguna umhverfisfyrirtæki ársins í dag.

Akureyri næst

ON hefur frá í mars 2014 opnað tíu hraðhleðslustöðvar fyrir rafbíla á suðvesturhorninu og hefur þannig verið í forystu um uppbyggingu innviða fyrir rafmagnsbíla. Fjölgun rafbíla er eitt helsta sóknarfæri Íslendinga í að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Þetta ræðst af því að útblástur vegna orkuframleiðslu hér er lítill en hann er helsti vandi flestra annarra þjóða. „Þessa dagana erum við að uppfæra þær rafdælur sem við höfum þegar sett upp þannig að þær geti þjónað fleiri bíltegundum og einnig ætlum við að fjölga þeim,“ sagði Páll Erland í ávarpi sínu. „Akureyri er næst á dagskrá,“ bætti hann við.

Grænt rafmagn – grænni ferðir

Fáar þjóðir í veröldinni, ef nokkur, fær eins hátt hlutfall orkunnar sem hún nýtir frá endurnýjanlegum orkulindum. Raforkuframleiðsla á Íslandi árið 2014 var 18.122 gígavattstundir. Þar af voru 2 úr eldsneyti eða 0,01%. Íslenskt rafmagn er því einkar vel fallið til að gera samgöngur umhverfisvænni.

Í ávarpinu við móttöku Umhverfisverðlauna atvinnulífsins í dag sagði Páll einnig að ON ætlaði ekki bara að styðja aðra við að komast örugglega milli staða á rafbíl, heldur að halda áfram að rafvæða eigin bílaflota. Hann hvatti viðstadda til að taka öflugri þátt í því. „Fjölgun rafbíla er því eitt helsta sóknarfæri Íslendinga til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, auk þess sem það er ódýrt að reka rafbíla, þeir eru kraftmiklir og hljóðlátir og það er þjóðhagslega klókt að nota innlenda hreina orku í að knýja bílaflotann“ sagði Páll. „Stuðlum að vistvænum samgöngum og setjum rafmagnið í umferð,“ voru lokaorð Páls.

Umhverfisverðlaun atvinnulífsins
Frá vinstri: Páll Erland, framkvæmdastjóri ON, Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands og Einar Einarsson, framkvæmdastjóri Steinullar hf.