Dregið úr umhverfisáhrifum jarðhitanýtingar á Nesjavöllum

Tilraunir við dælingu á vinnsluvatni frá Nesjavallavirkjun niður í jarðhitageyminn við virkjunina eru hafnar. Markmiðið er einkum að draga úr losun vatns á yfirborði og mæta auknum umhverfiskröfum til rekstursins.

Tvíþættur tilgangur niðurdælingar

Niðurdæling vinnsluvatns frá jarðgufuvirkjunum hefur tvíþættan tilgang. Annars vegar dregur hún úr umhverfisáhrifum á yfirborði með því að vinnsluvatnið er ekki losað þar. Í nýrri jarðgufuvirkjunum er almennt gerð sú krafa að vinnsluvatninu sé skilað niður í jarðhitageyminn en losunin er með ýmsu móti í eldri virkjunum. Bláa lónið er afrakstur einnar aðferðar við losun en á Nesjavöllum, þar sem virkjanarekstur hófst árið 1990, hefur vatnið ýmist verið losað í grunnar borholur við virkjunina eða á yfirborði. Áhrifa þessarar losunar gætir í hækkuðu hitastigi Þingvallavatns í Þorsteinsvík, norður af virkjuninni. Með aðgerðunum nú á að draga úr eða eyða þeim áhrifum.

Hins vegar eflir niðurdælingin sjálfbærni nýtingar jarðhitaauðlindarinnar með því að vinnsluvatni er skilað aftur niður í jarðlög þar sem það hitnar að nýju. Þetta spornar gegn lækkun á vatnsþrýstingi í jarðhitageyminum.

Getur virkað sem smurning

Við borun á jarðhitasvæðum – hvort sem það er vegna gufuöflunar eða niðurdælingar – er leitast við að finna lekar jarðmyndanir á borð við sprungur og misgengi. Sé spenna í þeim sprungum sem dælt er niður í getur vatnið virkað eins og smurning þannig að spennan losnar með skjálftum í nánasta umhverfi við niðurdælinguna. Slíkir skjálftar eru kallaðir gikkskjálftar og eru þeir alla jafna tiltölulega smáir, það smáir að þeir finnast ekki og mælast þeir helst þegar meiriháttar breytingar verða á niðurdælingunni. Fyrir fjórum árum fundust slíkir skjálftar þó í byggð og í kjölfarið var þróað verklag við niðurdælinguna sem fylgt hefur verið síðan. Skjálftar af þessu tagi hafa ekki valdið óþægindum síðan þótt þeir komi fram á mælitækjum.

Tilkynningar til almennings

Hluti verklagsins er að senda almenningi upplýsingar þegar breyting verður á niðurdælingunni og vísindamenn telja tímabundið auknar líkur á skjálfta sem finnst í byggð. Orka náttúrunnar, sem á og rekur jarðgufuvirkjanirnar á Hengilssvæðinu, hefur nokkrum sinnum á síðustu misserum sent slíkar tilkynningar til almennings og viðbragðsaðila. Ekki hafa þó orðið skjálftar sem fundist hafa í byggð í kjölfar tilkynninganna og nú stendur yfir vinna við að rýna verklagið í ljósi þeirrar reynslu.

Nesjavellir
Nesjavellir