Austurland opnast rafbílaeigendum

Í dag tók Orka náttúrunnar í notkun tvær hlöður fyrir rafbílaeigendur, á Egilsstöðum og í Freysnesi í Öræfum. Hlaðan á Egilsstöðum er við þjónustustöð N1, sem er miðsvæðis í bænum og liggur vel við samgöngum í landshlutanum. Báðar hlöðurnar eru búnar hraðhleðslum sem geta þjónað flestum gerðum rafbíla auk hefðbundinna hleðsla.

Austurland kjörlendi rafbílaeigenda

Á Egilsstöðum hlóð Stefán Sigurðsson rafbílaeigandi fyrstur manna bílinn sinn að viðstöddum þeim Bjarna Má Júlíussyni framkvæmdastjóri ON og Sigrúnu Hólm Þórleifsdóttur stöðvarstjóra N1 á Egilsstöðum. „Austurland er kjörið fyrir rafbíla,“ segir Bjarni Már. „Vegalengdir milli staða eru þannig að þessi hlaða okkar á Egilsstöðum, sem er mjög miðsvæðis, getur þjónað hverjum þeim sem er að skreppa á milli byggðanna í fjórðungnum. Nýju Norðfjarðargöngin skipta líka miklu máli,“ bætir Bjarni Már við. Hann segir undirbúningur vegna nýrrar hlöðu ON á Stöðvarfirði sé langt kominn og á næsta ári verði hringveginum lokað með hlöðum á leiðinni milli Austurlands og Norðurlands og við Hornafjörð.

Annríki í jólamánuðinum

Nú í desember hafa fjórar hlöður bæst við þetta net innviða sem ON hefur byggt upp til að þjóna rafbílaeigendum. Markmið orkufyrirtækisins er að ýta undir og flýta orkuskiptum í samgöngum sem eru í senn umhverfisvænar og hagkvæmar. Auk þeirra tveggja sem opnaðar voru í dag, voru hlöður á Djúpavogi og við Jökulsárlón teknar í notkun fyrr í mánuðinum.

Mynd
Kort af hlöðum ON

 

Góðir samstarfsaðilar lykilatriði

Við uppbyggingu þessara innviða hefur ON leitað til fjölda samstarfsaðila til að finna hlöðunum stað. N1 hefur reynst ON mikilvægasti samstarfsaðilinn. Þjónustustöðvar fyrirtækisins eru víða um land og vel í sveit settar til að þjóna vegfarendum. Þá hefur ON notið fjárstyrks úr Orkusjóði til uppbyggingarinnar en markmiðið er að opna landið fyrir rafbílaeigendur og varða hringveginn hlöðum. Í Freysnesi, rétt við Skaftafell, er Skeljungur samstarfsaðili ON. Við opnun hlöðunnar þar nú í dag tók Ragna Kristín Jónsdóttir á móti Jóni Sigurðssyni, verkefnisstjóra hjá ON.

Hlaða ON á Egilsstöðum
Bjarni Már Júlíusson og Sigrún Hólm Þórleifsdóttir við hlöðu ON á Egilsstöðum