80 metra veðurrannsóknamastur risið á Skarðsmýrarfjalli

Föstudaginn 1. október sl. var reist 80 metra hátt veðurathugunarmastur á Skarðsmýrarfjalli á Hengilssvæðinu.

Það er Orka náttúrunnar, sem rekur Hellisheiðarvirkjun, sem stendur að rannsóknunum. Í því verður búnaður til að mæla vind og hitastig. Mastrið, sem er stagað 16 stögum, mun standa í grennd við fjarskiptamöstur sem fyrir eru á fjallinu og verður ámóta þeim að hæð. Flugviðvörunarljós verða á því.

Markmið veðurmælinganna er að finna út hvenær hitahvörf myndast í lofti yfir virkjanasvæði Hellisheiðarvirkjunar. Í hægri austanátt auka slík hitaskil líkur á hækkuðum styrk brennisteinsvetnis á höfuðborgarsvæðinu. Gögnin á að nýta til að ákveða hvenær rétt sé að ræsa gufuháf, sem Orka náttúrunnar hefur komið upp á svæðinu, og hefur það hlutverk að auka dreifingu brennisteinsvetnis þegar mest hætta á er að styrkur þess í byggð aukist. Komi einhvern tíma til greina að nýta vindorku á svæðinu til orkuframleiðslu, munu gögnin nýtast til grunnmats á þeim möguleika.

ON vekur athygli á að þar sem mastrið er stagað niður þarf einkum vélsleðafólk að gæta sín á stögunum og athygli flugmanna er vakin á að flug á svæðinu í undir 300 metra hæð er bönnuð samkvæmt ákvörðun flugmálayfirvalda.

 

20160930_140320-web.jpg